Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, telur líklegt að aukinn hvati verði fyrir fólk að stunda nám næstu árin vegna erfiðleika í fjármálalífi. OECD bendir á að menntun er góð fjárfesting og að nettó ávinningur samfélagsins af fjárfestingu í háskólamenntun sé meiri en 50.000 bandaríkjadalir á nemanda að meðaltali í OECD ríkjunum.
Fjallað er um þetta í nýju riti OECD, Education at a Glance 2009, OECD Indicators, sem vitnað er til á heimasíðu Hagstofunnar. Þar kemur fram, að á tímum niðursveiflu í efnahagslífinu sé fórnarkostnaður nemenda við menntun vegna tapaðra launa minni en á uppgangstímum. Þá sé erfiðara fyrir nýútskrifaða að komast inn á vinnumarkaðinn þar sem þeir keppa við reynslumeiri starfsmenn. Yngra fólk með litla menntun, sem verði atvinnulaust sé líklegra til að vera atvinnulaust í lengri tíma.
Með aukinni ásókn
yngra fólks í menntun breikkar bilið á milli vel menntaðs yngra fólks
og eldra starfsfólks sem oft hefur minni menntun, og á erfitt með að fá
starf ef það á annað borð missir vinnuna. OECD segir, að stjórnvöld þurfi því að skoða
hvernig hægt sé að koma til móts við þarfir eldra fólks fyrir
símenntun, segir OECD. Þess er vænst að útgjöld til menntamála verði
grandskoðuð og tekist á um hvernig eigi að fjármagna menntun.
Jafnframt
bendir OECD á tölur sem sýna félagslegar afleiðingar menntunar. Þannig
eru þeir sem eru meira menntaðir líklegri til að vera við betri heilsu,
hafa meiri áhuga á þjóðmálum og treysta betur öðrum í samfélaginu.