Um síðustu mánaðamót gengu í gildi lög þar sem vörugjald er sett á fjölmargar neysluvörur og þá helst á matvörur ýmiskonar. Í flestum tilvikum er um það að ræða að nú er á nýjan leik lagt vörugjald á vörur, sem fellt var niður 1. mars 2007 þegar gripið var til aðgerða til að lækka matvælaverð. Frá þessu er greint á heimasíðu Neytendasamtakanna.
„Neytendasamtökin hafa lengi gagnrýnt vörugjaldið, enda um að ræða gjald sem lagt er mjög handahófskennt á og mismunar oftar en ekki samkeppnisvörum. En að sjálfsögðu er megingallinn við gjaldið sá að það hækkar vöruverð til neytenda,“ segir á heimasíðu samtakanna.
Þar segir að ekki aðeins hækki vöruverð heldur leiði hún til hækkunar á verðbólgu og þar með hækki verðtryggð lán heimilanna. „Því hafa Neytendasamtökin lagt til að að stjórnvöld afli aukinna tekna frekar með beinum sköttum en óbeinum. Vörugjald er lagt á sem ákveðin krónutala á kíló eða lítra vöru. Þess ber að geta að þetta hækkar stofninn sem lagður er til grundvallar álagningu virðisaukaskatts, þannig að raunhækkun er meiri fyrir neytendur en sem nemur vörugjaldinu einu saman.“
Dæmi sem Neytendasamtökin nefna er að vörugjuald hækkar um 16 krónur á lítra af ávaxtasafa, gosdrykkjum, vatni (ölkelduvatni og kolsýrðu), drykkjarvörur úr sojabaunum, hrígrjónum og/eða möndlum, öli sem gert er úr malti með meira en 0,5% til og með 2,25% vínanda af rúmmáli, víni úr þrúgum með meira en 0,5% til og með 2,25% vínanda af rúmmáli, edik og edikslíki fengið er úr ediksýru. Auk þess hækkar vörugjald um 16 krónur á lítra af ís.
Margt fleira er nefnt, m.a. að hækkunin nemur 100 kr á kíló af fylltu og ófylltu súkkulaði, svo og páskaeggjum.