Mögulegar bætur til fyrrverandi vistmanna á Breiðavíkurheimilinu og annarra sem urðu fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða vistheimilum á vegum ríkisins verða skattfrjálsar, samkvæmt hugmyndum forsætisráðherra. Sérstakri bótanefnd verður falið að kveða á um almennar bætur til fyrrverandi vistmanna eða erfingja vistmanna, séu þeir fallnir frá.
Forsætisráðherra hefur ákveðið að fela starfshópi að undirbúa frumvarp á grundvelli samskipta ráðuneytisins við Breiðavíkursamtökin og í ljósi fyrstu áfangaskýrslu vistheimilisnefndar sem fjallar um þrjú heimili til viðbótar, Heyrnleysingjaskólann, Kumbaravog og skólaheimilið Bjarg.
Stefnt er að því að setja almenna löggjöf um bótagreiðslur og verður samráð haft við samtök fyrrverandi vistmanna og hlutaðeigandi sveitarfélög.
Forsætisráðuneytið hefur frá því í apríl síðastliðnum átt í viðræðum og bréfaskiptum við Breiðavíkursamtökin vegna bótagreiðslna til fyrrverandi vistmanna. Rætt hefur verið um hvernig megi endurbæta það frumvarp sem þáverandi ríkisstjórn hafði látið vinna vorið 2008 og kynnt hafði verið samtökunum á þeim tíma. Það frumvarp var meðal annars gagnrýnt fyrir að bætur væru of lágar og of mikil áhersla lögð á að sýnt væri fram á geðrænar afleiðingar vistunar.
Síðustu samskipti voru þau að ráðuneytið sendi bréf með ákveðnum hugmyndum 8. júlí sl. og Breiðavíkursamtökin svöruðu með bréfi dags. 18. ágúst sl. Ráðuneytið hafði lýst sig reiðubúið til að útfæra bráðabirgðasátt varðandi Breiðavíkurheimilið á grundvelli núgildandi fjárheimilda en því var hafnað.
Þess vegna er áfram unnið að því að sett verði almenn lög sem geti átt við um bætur vegna misgjörða á öllum þeim heimilum sem koma til skoðunar á grundvelli laga um vistheimilisnefnd.
Forsætisráðherra segir að áður en rætt verði um fjárhæðir í einstaka tilfellum sé mikilvægt að ná sátt um aðferðafræðina við ákvörðun bóta, þ.e. rammann um sátt samfélagins við þá sem eiga um sárt að binda eftir dvöl á vistheimilum fyrir börn.
Forsætisráðherra leggur áherslu á fjögur atriði þegar kemur að löggjöf um bótagreiðslur til þeirra sem urðu fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða vistheimilum á vegum ríkisins.