„Í Breiðavík bættist það við á tímabili að starfsmenn höfðu í frammi mjög alvarlegar ofbeldisathafnir. Það sjáum við ekki með sama hætti hjá þessum þremur stofnunum nema í afmörkuðum tilfellum og við tökum skýrt fram að þær ná klárlega ekki því grófleikastigi sem var í Breiðavíkurmálinu,“segir Róbert Spanó formaður vistheimilisnefndar sem skilaði áfangaskýrslu um starfsemi þriggja vistheimila í dag.
Nefndin skilaði skýrslu vegna Heyrnleysingjaskólans á árunum 1947-1992, stúlknaheimilisins Bjargs 1965-1967 og Kumbaravogs árin 1965-1984.
„Niðurstöður okkar hér og í Breiðavíkurmálinu benda til þess að þarna hafi verið vandamál, að sumu leyti kerfislegt vandamál varðandi eftirlitsskort með þeim börnum sem eru vistuð á þessum stofnunum. Það er mjög gjarnan þannig að um er að ræða innbyrðis samskipti þeirra sem eru óeðlileg og hafa haft neikvæð áhrif á líðan þeirra til framtíðar,“ sagði Róbert á blaðamannafundi vegna skýrslu nefndarinnar í dag.
Skýrslan er byggð á gagnasöfnun og viðtölum við tugi vistmanna. Það er m.a. afstaða nefndarinnar að sú kennslustefna sem tekið var mið af við kennslu í heyrnleysingjaskólanum og sá aðskilnaður sem ung heyrnarlaus börn þurftu að upplifa hafiverið þessum hópi afar þungbær. Nefndin telur engum vafa undirorpið að þessi aðstaða hafi átt verulegan þátt í að skerða lífsgæði þessara einstaklinga í íslensku samfélagi.