Olli Rehn afhendir spurningar

Olli Rehn afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra spurningalista frá framkvæmdastjórn ESB. …
Olli Rehn afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra spurningalista frá framkvæmdastjórn ESB. Um er að ræða um 2500 spurningar sem skiptast í 33 kafla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, segir að koma hans til landsins marki nýtt skref í umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Segir hann megintilgang með heimsókn sinni vera að afhenda stjórnvöldum spurningalista frá framkvæmdastjórninni.

Um er að ræða um 2500 spurningar sem skiptast í 33 kafla og beinast að þeim efnisþáttum sem fyrirhugaðar aðildarviðræður munu lúta að. Auk þess er athyglinni beint að ýmsum innviðum landsins, stofnanalegri uppbyggingu og stjórnkerfi. Einstök ráðuneyti og stofnanir munu undirbúa svör við spurningunum á næstu vikum en gert er ráð fyrir að þau liggi fyrir eins fljótt og kostur er.

Rehn átti nú síðdegis fund með Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, þar sem þeir fóru yfir stöðu mála, en Rehn kom til landsins fyrr í dag.

Sagði Össur að koma Rehns til landsins væri einn áfanginn í umsóknarferli Íslands inn í Evrópusambandið. Mun Rehn afhenda Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra ítarlegan spurningalista sem íslenskum stjórnvöldum er gert að svara og skila inn til ESB.

Sagði Össur að stjórnvöld hefðu frest til 16. nóvember, til að hægt sé að taka fyrir umsókn landsins á fundi í ESB í desember. Sagði hann bjartsýnn á að þetta tækist enda hafi íslensk stjórnvöld rannsakað og skoðað spurningar annarra ríkja í svipuðu ferli. Hann væri vongóður um að hægt væri að hefja samningaviðræður við ESB snemma á næsta ári.

Rehn sagði komu sína til landsins marka nýtt skref í umsókn Íslands að ESB. Sagði hann megintilgang með heimsókn sinni ver a að afhenda spurningarnar og sagðist spenntur að heyra hvernig Ísland hyggst uppfylla skilyrði fyrir aðildarumsókn.

Þá sagði hann ESB búast við að svör berist hratt og um leið og þau bærist gætu þeir fengið góða mynd af getu landsins til að uppfylla skilyrði fyrir umsókn. Hann sagði lýðræðishefð langa á Íslandi og það væri þegar komið langt í aðlögun að sambandinu, enda bæði aðildarland að Evrópska efnahagssambandinu  og Shengen svæðinu. Þegar Ísland verði  búið að uppfylla öll skilyrðin verði það meira en velkomið í sambandið.

Kom fram á fundinum að spurningarnar væru um 2500 talsins og vörðuðu  stefnu stjórnvalda í ýmsum málum. Spurningalistinn væri mun styttri en t.a.m. Montenegro hefði fengið nýverið vegna umsóknar þess lands að sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert