Bifreið var mæld á 159 km/klst hraða um hálf sjöleytið í kvöld þegar henni var ekið austur Suðurlandsveg við Strönd, milli Hvolsvallar og Hellu, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Ökumaðurinn stöðvaði ekki bifreiðina strax og var rætt við hann þegar hann var kominn á leiðarenda við Hótel Rangá. Var tvennt í bifreiðinni, karl og kona, og hafði konan ekið bifreiðinni sem var frá bílaleigu. Var um erlenda ferðamenn að ræða og útskýringu fyrir hraðakstrinum sagði konan vera að hún hefði verið að drífa sig á salernið.
Í viðræðum við konuna vaknaði grunur um ölvun við akstur og var hún beðin um að gefa öndunarpróf sem gaf síðan jákvæða niðurstöðu. Var konan því handtekin og flutt á lögreglustöðina á Hvolsvelli þar sem hún var beðin um að gefa öndunarsýni sem sýndi að konan var undir áhrifum áfengis við ofasaksturinn á bifreiðinni. Var henni gert að greiða sekt sem hljómaði uppá hátt á annað hundrað þúsund krónur og var hún frjáls ferða sinna eftir að hafa gengið frá sínum málum hjá lögreglu, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.