Stofna Fjárfestingasjóð Íslands í október

Samþykkt var á fjöl­menn­um fundi full­trúa líf­eyr­is­sjóða í Reykja­vík í dag að boðað yrði til stofn­fund­ar nýs fjár­fest­ing­ar­fé­lags líf­eyr­is­sjóðanna. Stefnt er að stofn­fundi í októ­ber. Vinnu­heiti fé­lags­ins er Fjár­fest­ing­ar­sjóður Íslands.

Gerð var grein fyr­ir hlut­verki, til­gangi og starf­semi fjár­fest­ing­ar­sjóðsins og drög­um að skil­mál­um hans sem fyr­ir liggja frá hendi starfs­hóps á veg­um líf­eyr­is­sjóðanna. Það er síðan á valdi stjórn­ar hvers líf­eyr­is­sjóðs að ræða málið í eig­in ranni og taka af­stöðu til þess á næstu vik­um hvort viðkom­andi sjóður tek­ur þátt í að stofna Fjár­fest­ing­ar­sjóð Íslands.

Gert er ráð fyr­ir að hver og einn líf­eyr­is­sjóður skuld­bindi sig í upp­hafi til þátt­töku í verk­efn­inu með því að ábyrgj­ast til­tekið fram­lag sem nýi fjár­fest­ing­ar­sjóður­inn kall­ar síðan eft­ir á næstu þrem­ur til fjór­um árum þegar fyr­ir liggja ákv­arðanir um fjár­fest­ing­ar af hans hálfu. Eng­ar upp­hæðir voru nefnd­ar á fund­in­um í dag, hvorki um fram­lög ein­stakra líf­eyr­is­sjóða né um áformað heild­ar­um­fang nýja fjár­fest­ing­ar­sjóðsins.

Fram kom að gert væri ráð fyr­ir því að Fjár­fest­ing­ar­sjóður Íslands eignaðist hluti í ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um í öll­um grein­um at­vinnu­lífs­ins, einkum þeim sem lent hefðu í erfiðleik­um vegna efna­hags­hruns­ins en ættu sér væn­leg­an rekstr­ar­grund­völl til lengri tíma. Sér­stak­lega yrði horft til fyr­ir­tækja sem öfluðu gjald­eyristekna eða spöruðu gjald­eyri með starf­semi sinni.

Fjár­fest­inga­sjóður Íslands mun ekki taka þátt í fjár­fest­ing­um sem orka tví­mæl­is út frá al­menn­um siðaregl­um. Sjóður­inn mun viðhafa góða stjórn­un­ar­hætti og sýna sam­fé­lags­lega ábyrgð og ábyrgð í um­hverf­is­mál­um í starfi sínu. Enn frem­ur kom fram í kynn­ing­unni að lögð yrði áhersla á að fyr­ir­tæki, sem fjár­fest er í, störfuðu sam­kvæmt lög­um og regl­um, virtu alþjóðlega sátt­mála um mann­rétt­indi, rétt­indi launa­fólks, barna­vinnu og um­hverf­is­vernd. Þá yrði í fjár­fest­ing­um litið til reglna OECD, Viðskiptaráðs Íslands, Kaup­hall­ar Íslands og sam­taka launa­fólks og at­vinnu­rek­enda um stjórn­un­ar­hætti fyr­ir­tækja og til reglna Sam­einuðu þjóðanna um ábyrg­ar fjár­fest­ing­ar.

Mark­miðið með starf­semi Fjár­fest­inga­sjóðs Íslands er að ná væn­legri arðsemi á fjár­fram­lög hlut­hafa, þ.e. líf­eyr­is­sjóðanna. Sér­stakt ráðgjaf­ar­ráð mun marka fjár­fest­inga­stefnu sjóðsins að til­lögu sjóðsstjórn­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert