Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að þrír karlmenn, sem grunaðir eru um stórfelld innbrot og þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu, sæti áframhaldandi gæsluvarðhalds til föstudags..
Mennirnir eru allir pólskir. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að einn þeirra hafi verið ákærður fyrir þjófnaði og umferðarlagabrot í lok síðasta árs en sú ákæra var hins vegar send til baka úr héraðsdómi þar sem talið var að maðurinn væri farinn af landi brott.
Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn sé sterklega grunaður um ýmis brot, flest framin í júní, júlí og ágúst. Meðal annars er hann grunaður um að hafa brotist inn í safnaðarheimili Langholtskirkju í ágúst.
Mikið magn af þýfi fannst í húsleitum í tengslum við rannsókn máls mannanna.