Atvinnuleysi í ágúst mældist 7,7%, samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar. Þetta jafngildir því að 13.387 manns hafi verið atvinnulausir í mánuðinum.
Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 12.526, af þeim voru 861 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í viðtöl hjá ráðgjöfum stofnunarinnar og á kynningarfundi.
Atvinnuleysi minnkar um 2,7% að meðaltali frá júlí eða um 369 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,2%, eða 2.136 manns.
Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 11,4% en minnst á Vestfjörðum 1,3%. Atvinnuleysi minnkaði á höfuðborgarsvæðinu um 2,5% en minnkar um 3,2% á landsbyggðinni.
Atvinnuleysi minnkar um 3,6% meðal karla en minnkar um 1,5% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 7,9% meðal karla og 7,5% meðal kvenna. Langtímaatvinnuleysi eykst og þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 7.457 í lok ágúst en 7.184 í lok júlí og eru nú um 52% allra á atvinnuleysisskrá. Þeir sem verið hafa atvinnulausir í meira en ár voru 779 í lok ágúst en 629 í lok júlí. Atvinnulausum 16-24 ára hefur fækkað og voru 2.643 í lok ágúst en 3.151 í lok júlí eða um 18% allra atvinnulausra í ágúst.
Fjöldi atvinnulausra í lok mánaðar
Alls voru 14.371 atvinnulausir í lok ágúst. Fækkun atvinnulausra í lok ágúst mánaðar frá lokum júlí nam 846, en 467 færri karlar voru á skrá og 379 færri konur. Á landsbyggðinni fækkar um 203 og um 643 á höfuðborgarsvæðinu.
Spá 7,3-7,8% atvinnuleysi í september
Yfirleitt batnar atvinnuástandið frá ágúst til september, m.a. vegna þess að skólafólk fer af vinnumarkaði. Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í september 2009 minnki og verði á bilinu 7,3%-7,8%. Í fyrra var atvinnuleysið 1,3% í september.
Laus störf og ráðningar í ágúst
Alls voru 495 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok ágúst sem er fækkun um 510 frá því í mánuðinum áður þegar þau voru 1.005. Í sumar voru mörg störf sem féllu undir vinnumarkaðsúrræði, flest átaksverkefni á vegum sveitarfélaga. Meiripartur þessara starfa var afskráður úr tölvukerfinu í ágúst vegna ráðningar eða að hætt var við að ráða í störfin, því fækkar óvenjumikið nú milli mánaða.
Flestir útlendinga sem eru atvinnulausir störfuðu í byggingariðnaði
Alls voru 1.652 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok ágúst, þar af 1.037 Pólverjar eða um 63% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok ágúst. Langflestir þeirra voru starfandi í byggingariðnaði eða 459 (um 28% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá).
Minnkað starfshlutfall, hlutastörf og hlutabætur
Samtals voru 2.290 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok ágúst í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í ágúst. Þetta eru um 16% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok ágúst.
Af þeim 2.290 sem voru í hlutastörfum í lok ágúst er 1.491 einstaklingur sem sótti um atvinnuleysisbætur skv. lögum um minnkað starfshlutfall frá því í nóvember 2008. Þeim hefur fækkað frá fyrri mánuði, en þeir voru 1.530 í lok júlí.
Í ágúst voru 860 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim fækkaði frá júlí þegar þeir voru 902.
Hópuppsagnir og gjaldþrot
Í ágústmánuði bárust Vinnumálastofnun 3 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 50 starfsmönnum var sagt upp. Alls fengu 124 launamenn greitt úr Ábyrgðarsjóði launa í ágúst, 129 í júlí 275 í júní og 110 í maí. Flestir voru starfandi í mannvirkjagerð og iðnaði, 89.