Eignir í skattaskjólum jukust um 40% í fyrra

Frá Tortola
Frá Tortola mbl.is

Virði eigna Íslendinga í skattaskjólunum Tortola, Kýpur, Mön, Jersey, Guernsey og Cayman-eyjum jókst um 40 prósent á síðasta ári á meðan heildareignir Íslendinga erlendis brunnu upp.

Beinar fjármunaeignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum jukust um 27,2 milljarða króna í fyrra og námu í árslok 72,5 milljörðum króna.

Á sama tíma lækkaði virði allra fjármunaeigna Íslendinga erlendis um þriðjung, eða um 463 milljarða króna. Hafa ber í huga í þessu sambandi að krónan veiktist um tæp 44% á árinu 2008. Því hækkaði virði erlendra eigna í krónum á árinu.

Vert er að taka fram að ekki er um að ræða tæmandi eignir Íslendinga sem eru skráðar á þessum stöðum, heldur einungis beina eign. Óbein eign í skattaskjólsfélögum var einnig mjög algeng á meðal íslenskra kaupsýslumanna í gegnum önnur aflandsfélög, sem voru helst skráð í Hollandi eða Lúxemborg.

Um helmingur fjármunanna sem geymdir eru í skattaskjólum, tæplega 35 milljarðar króna, er geymdur á Kýpur en eignir Íslendinga þar jukust um 45 prósent á árinu 2008, eða rúma fimmtán milljarða.

Tengsl íslenskra kaupsýslumanna við Kýpur hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum. Meðal annars var stærsti eigandi Landsbankans fyrir bankahrun, Samson eignarhaldsfélag, í helmingseigu kýpverska félagsins Bell Global Investments, sem aftur var í eigu Björgólfsfeðga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka