Engin gjaldeyrislán hjá Nýja-Kaupþingi

mbl.is/Ómar

Nýja Kaupþing segist ekki hafa veitt einstaklingum lán í erlendum gjaldmiðlum til húsnæðiskaupa. Hins vegar hafi bankinn tekið við hluta af lánasafni gamla Kaupþings samkvæmt ákvörðun stjórnvalda og hluti þess séu húsnæðislán í erlendri mynt.

Nýja Kaupþing hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta um að fjölskylda í Kópavogi hafi kært bæði gamla og nýja Kaupþing til lögreglu fyrir stórfelld fjársvik gegn almenningi með því að hafa með ólögmætum hætti veitt almenningi gengistryggð lán og á sama tíma tekið stöðu gegn krónunni.

Yfirlýsing Nýja Kaupþings er eftirfarandi:

Nýja Kaupþing hefur ekki veitt einstaklingum lán í erlendum gjaldmiðlum til húsnæðiskaupa. Nýja Kaupþing tók við hluta af lánasafni gamla Kaupþings samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Hluti þess eru húsnæðislán í erlendri mynt.

Hluti lána sem gömlu íslensku bankarnir veittu viðskiptavinum sínum til fasteignakaupa voru lán í erlendum myntum, ekki í íslenskum krónum. Þarna er reginmunur á, enda gerðu eftirlitsstofnanir ekki athugasemdir við lán í erlendum myntum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, segir í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 38 frá árinu 2001, að ekki sé „heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.“ Það er hins vegar löglegt að veita lán í erlendum gjaldmiðli. Slík lán bera erlenda vexti en skuldbindingar í íslenskum krónum bera íslenska vexti.

Nýja Kaupþing leggur mikla áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrræði fyrir viðskiptavini sína sem lent hafa í vandræðum vegna efnahagskreppunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka