Erlend fjárfesting mikilvæg

Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, samþykkti í dag ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að huga vel að erlendri fjárfestingu inn í landið í stað þess að  þvælast fyrir og hrekja burt þá sem reyna að koma með erlent fjármagn hingað.

Segir í ályktuninni, að almennt sé mikilvægt að fá erlent fjármagn til landsins og eigi það sérstaklega við um þessar mundir þegar erfitt sé að fjármagna verkefni og uppbyggingu hér á landi.

Segir Heimdallur brýnt,  að stjórnvöld taki sig á hvað þetta varðar. Ýmis dæmi hafi komið upp nýlega þar sem viðbrögð stjórnvalda við óskum og erindum frá erlendum aðilum um að koma með fjármagn til landsins hafi verið lítil sem engin og valdið því að hugmyndirnar renna út í sandinn. Ýmislegt virðist koma til; seinagangur og samskiptaleysi innan stjórnsýslunnar og hugmyndafræðileg andstaða og tortryggni í garð erlends fjármagns.

„Viðbrögð stjórnvalda hafa gert það að verkum að ýmis verkefni hafa orðið að engu. Japanskir fjárfestar hafa í níu mánuði engin svör fengið við ætlunum sínum um að koma með á annað hundrað milljarða króna hingað til lands. Bandaríkjamaður sem vill fjárfesta í íslensku orkufyrirtæki þarf að mæta á fundi í fjármálaráðuneytinu til að sannfæra ráðherrann. Fyrr á árinu mættu hugmyndir norsks fjárfestis, sem vildi leigja vannýttar skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að veita þar þjónustu til sjúklinga frá Norðurlöndunum og skapa þannig gjaldeyristekjur, andstöðu heilbrigðisráðherra sem stöðvaði framgang málsins," segir m.a. í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert