Þórarinn Jónsson, bóndi á Hálsi í Kjós, segist fagna því, að ummæli hans í frétt í Mbl Sjónvarpi í dag verði til þess að meðhöndlun og gæði nautakjöts verði til umfjöllunar.
Í fréttinni sagði Þórarinn að víða sé þyngdaraukandi og vatnsbindandi efnum blandað í nautahakk. Þá sé það opinbert leyndarmál að það sé bætt hrossakjöti, svínafitu, kartöflumjöli og öðru því sem mönnum detti í hug, saman við nautahakk.
Samtök iðnaðarins sögðu að Þórarinn yrði að færa rök fyrir orðum sínum en ella draga þau til baka. Þá hvöttu Neytendasamtökin til þess að rannsókn fari fram á málinu.
Þórarinn hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir, að vegna óundirbúinnar fréttar á mbl.is varðandi hreinleika nautakjöts og snarpra viðbragða Landsambands kúabænda og Samtaka iðnaðarins, þá sé því fagnað að óundirbúin ummæli hans í fréttinni verði til þess að meðhöndlun og gæði nautakjöts verði til umfjöllunar.
„Eðli málsins samkvæmt, notar hver og einn það tungutak sem honum er tamast og talar út frá þeim upplýsingum sem hann býr yfir. Fari það fari fyrir brjóstið á ótilteknum aðilum, verður svo að vera. Var það ekki ásetningur minn að upphefja mína framleiðslu á kostnað annarra heldur fremur að svara spurningum fréttamanns frá eigin brjósti.
Vísast er hægt að hrekja einhver þau ummæli sem mér féllu af vörum og verður það væntanlega gert með réttu eða röngu. Eftir stendur þó sú staðreynd að viðskiptamenn mínir telja sig ekki fá sambærilegt nautakjöt að gæðum á öðrum vettvangi og sú vitneskja að bæði vélbúnaður og efni eru á boðstólnum hér á landi til að „gæða kjötvöru"," segir Þórarinn í yfirlýsingunni.