Fréttaskýring: Fjárfestingasjóður efli markaðinn

Það er ekki ofmælt að segja íslenskan hlutabréfamarkað nánast dauðan frá því sem áður var þegar íslenska efnahagsbólan var í algleymingi um mitt ár 2007. Flest félög sem skráð voru í kauphöllinni hafa verið afskráð og er nú svo komið að hlutabréfaviðskipti í kauphöllinni eru lítil sem engin.

Markmiðið með Fjárfestingasjóði Íslands, sem stjórnir lífeyrissjóðanna hafa nú til skoðunar að stofna, er ekki síst að endurvekja íslenskan hlutabréfamarkað. Sjóðurinn mun hafa það að markmiði fyrst um sinn að vera kjölfestufjárfestir í lífvænlegum fyrirtækjum. Er þá einkum horft til fyrirtækja sem farið hafa illa út úr kreppunni þótt grunnrekstur þeirra sé traustur. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er horft til þess að lífeyrissjóðir í gegnum Fjárfestingasjóðinn verði eigendur 35 til 55 prósenta hlutafjár a.m.k. í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn mun verða stór hluthafi í.

Skynsamlegri „einkavæðing“

Ragnar Önundarson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir tækifærin fyrir lífeyrissjóðina ekki síst felast í því að fá aðkomu að fyrirtækjum með góðan rekstur í upphafi endurreisnarinnar. „Það má líkja þessu við einkavæðingu í raun. Þegar bankarnir voru einkavæddir þá fengu lífeyrissjóðirnir ekki aðkomu að því nema í gegnum hlutabréfamarkaðinn og þá með meiri tilkostnaði en þeir sem í upphafi fengu að verða kjölfestufjárfestar. Í þessu tilfelli, þar sem fyrst og fremst verður um að ræða fyrirtæki sem eru í höndum kröfuhafa vegna skuldavanda, þá tel ég skynsamlegra að lífeyrissjóðirnir fái strax kjölfestustöðu í fyrirtækjunum og efli þau fljótt og hlutabréfamarkaðinn í leiðinni með því að skrá þau á markaði.“

Skilvirkur markaður

Meðal þeirra fyrirtækja sem horft er til eru þau sem skapa gjaldeyri og þau sem spara gjaldeyri. Þá hefur komið til umræðu sérstaklega, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að lífeyrissjóðirnir verði eigendur að tryggingarfélögum komi til þess að eitthvert þeirra verði selt. Er þar meðal annars horft til Sjóvár, sem fyrirhugað er að selja síðar á þessu ári eða því næsta. Auk þess hefur nafn Icelandair borið á góma á óformlegum fundum forsvarsmanna lífeyrissjóðanna.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segist hafa þá trú að skilvirkur hlutabréfamarkaður muni gegna lykilhlutverki við endurreisn efnahagslífsins. „Við höfum alltaf gert ráð fyrir því að fyrsta árið eftir hrun myndi fara í að endurvekja skuldabréfamarkað en 2010 yrði árið sem skipti sköpum fyrir endurreisn hlutabréfamarkaðar. Það eru mikil tækifæri fyrir hendi ef rétt verður haldið á spilunum, sérstaklega að því er varðar uppbyggingu fyrirtækja sem eiga sér framtíð eftir endurskipulagningu þeirra. Ég er vongóður um framtíðina.“

Af sem áður var

Velta á íslenskum hlutabréfamarkaði náði hæstu hæðum á árinu 2007. Þá var veltan á hlutabréfamarkaði 3.109 milljarðar, en árið áður, sem þá var metár, var veltan rúmlega 2.200 milljarðar króna.

Árið í fyrra einkenndist af mikilli niðursveiflu sem endaði með hruni bankanna þriggja í byrjun október. Eftir það hefur veltan með hlutabréf nánast engin verið. Helst eru það hlutabréf í Marel og Össuri sem hafa gengið kaupum og sölum, en þó í miklu minna mæli en árin á undan. Það sem af er ári hefur veltan aðeins verið um 32 milljarðar króna sem þýðir að markaðurinn hefur fallið saman um ca. 97 prósent frá því sem best var, miðað við að þróunin verði svipuð út þetta ár og hingað til.

Erlendis hefur uppsveifla verið á flestum hlutabréfamörkuðum, eftir mikla niðursveiflu í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert