Hefja á sókn í orkumálum

Aðstoðarframkvæmdastjóri SA segir að ríkisstjórnin hafi samkvæmt stöðuðgeilkasáttmálanum lofast til …
Aðstoðarframkvæmdastjóri SA segir að ríkisstjórnin hafi samkvæmt stöðuðgeilkasáttmálanum lofast til að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. mbl.is/Rax

„Nú þarf ekki að ræða neikvæð ruðningsáhrif á annað atvinnulíf,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA. Hann bendir á að fyrir liggi fullhannaðar virkjanir og framkvæmdaáætlanir við álver sem bíði eftir því að orkusamningar verði gerðir. „Stöðugleikasáttmálinn er alveg skýr í þessu efni því þar segir beinlínis að ríkisstjórnin muni greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík,“ segir Hannes.

Aðstoðarframkvæmdastjórinn segir í leiðara nýs fréttabréfs SA að komandi vetur verði landsmönnum mjög erfiður efnahagslega og því sé brýnt að hefja nú þegar þær aðgerðir sem kveðið er á um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og sveitarfélaga frá því í sumar.

„Í aðdraganda samkomulagsins var sett fram sú sameiginlega sýn að skapa 15.000 störf  fram til ársins 2013 en sá árangur næst ekki nema hagvöxtur verði óvenju mikill, eða 4-4,5% á hverju ári. Til að hagvöxtur hefjist á ný liggja fjárfestingar í orkugeiranum og tengdum iðju- og gagnaverum beinast við,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Hann segir ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því andrúmslofti sem myndast hefur í kringum kaup kanadíska fyrirtækisins Magma á hlut OR í HS Orku. Erlendir fjárfestar hafi hingað til fengið arð af orkulindum Íslendinga í formi vaxta af lánum sem tekin hafa verið til byggingar virkjana en þau viðhorf séu útbreidd að óæskilegt sé að erlendir aðilar fái arð af áhættufé í orkuvinnslunni.

„Nú þegar erlendir lánamarkaðir eru lokaðir íslenskum orkufyrirtækjum og erlent áhættufé beinlínis forsenda þess að ráðist sé í orkuframkvæmdir eru slík viðhorf bæði úrelt og skaðleg fyrir það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað. Enginn hefur enda mótmælt því að erlendir aðilar bæði eigi og reki olíuborpalla komi til þess að slíkar orkulindir finnist á íslensku yfirráðasvæði,“ segir Hannes G. Sigurðsson.

Hann segir skorta framtíðarsýn og skýra stefnumótun. Auknar fjárfestingar í atvinnulífinu, með og án erlends fjármagns, og meðfylgjandi hagvöxtur geri öll önnur viðfangsefni miklu auðveldari, styrki fjárhag hins opinbera og dragi úr skaðlegum landflótta sem við blasi ef ekki tekst fljótlega að snúa þróuninni við.

„Valið er skýrt: Verður stuðlað að fjárfestingum í orkugeiranum og nýrri atvinnusköpun, gjaldeyrisöflun og hagvexti. Eða verður uppbygging orkuiðnaðarins tafin áfram með meðfylgjandi stöðnun og samdrætti á næstunni?“ segir í niðurlagi leiðar aðstoðarframkvæmdastjóra SA.

Leiðari SA 

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka