Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá máli, sem Jónína Benediktsdóttir vísaði þangað eftir að íslenskir dómstólar höfnuðu kröfu um að staðfesta lögbann á birtingu tölvupósta Jónínu.
Fréttablaðið birti hluta úr tölvupóstum Jónínu árið 2005 en þeir tengdust svonefndu Baugsmáli. Að kröfu Jónínu setti sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann á birtingu tölvupóstanna en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu um að staðfesta lögbannið og það sama gerði Hæstiréttur um mitt ár 2006.
Hæstiréttur sagði m.a. í dómi sínum, að þótt Fréttablaðið hafi fjallað um einkamálefni Jónínu, svo sem fjárhagsmálefni, væru þau svo samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki yrði greint á milli. Féllst Hæstiréttur því á það með 365 prentmiðlum, útgefanda blaðsins, að ekki hefði verið gengið nær einkalífi Jónínu en óhjákvæmilegt væri í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning.
Jónína kærði þessa niðurstöðu til Mannréttadómstóls Evrópu og taldi, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki veitt henni nægilega vernd gegn því, að einkaskjöl hennar birtust með ólöglegum hætti í fjölmiðlum. Því hefði verið brotið gegn mannréttindum hennar. Vísaði hún m.a. til þess, að íslenskir dómstólar hefðu hafnað lögbanninu og einnig hafnað kröfu um að þáverandi ritstjóri Fréttablaðsins sætti refsingu fyrir hegningarlagabrot.
Mannréttindadómstóllinn segir í niðurstöðu sinni, að svo virðist sem birting tölvupóstanna hafi tengst opinberri umræðu á Íslandi á þessum tíma, þar á meðal um að stjórnmálamenn hefðu beitt lögregluyfirvöld óeðlilegum þrýstingi vegna rannsóknarinnar á stjórnendum Baugs. Þegar þetta gerðist hafi Jónína lýst yfir framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum á árinu 2006.
Þá segir dómstóllinn, að þeir hlutar tölvupóstanna, sem Fréttablaðið birti, hafi tengst með beinum hætti ásökununum á hendur stjórnendum Baugs. Segist Mannréttindadómstóllinn ekki sjá neina ástæðu til að draga í efa þá niðurstöðu Hæstaréttar, að fjárhagsmálefni Jónínu hafi verið það tengd fréttamálinu, að ekki hafi verið hægt að greina þar á milli. Þá væri heldur ekki ástæða til að draga í efa það mat Hæstaréttar, að blaðið hafi ekki gengið nær einkalífi Jónínu en óhjákvæmilegt væri í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning.
Mannréttindadómstóllinn vísar einnig í niðurstöðu máls, sem Jónína höfðaði gegn DV eftir að blaðið birti kafla úr tölvupóstunum sem vörðuðu persónuleg mál hennar en niðurstaða íslenskra dómstóla væri, að blaðið hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs Jónínu. Var DV dæmt til að greiða henni 500 þúsund krónur í bætur. Segir Mannréttindadómstóllinn að þetta sýni að einkalíf Jónínu hafi notið lögformlegrar verndar á Íslandi.
Loks bendir Mannréttindadómstóllinn á, að lögbannið, sem sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á að kröfu Jónínu, gilti frá 1. október 2005 til 1. júní 2006 þegar dómur Hæstaréttar féll. Fréttablaðið eða aðrir miðlar 365 hafi ekki eftir það birt neinar upplýsingar úr tölvupóstunum og því sé varla hægt að brotið hafi verið gegn réttindum Jónínu þótt Hæstiréttur hafi ekki fallist á varanlegt lögbann.
Segir dómstóllinn loks að ekkert bendi til þess, að íslensk stjórnvöld hafi ekki gætt jafnvægis á milli tjáningarfrelsis dagblaðsins og þess réttar Jónínu að einkalíf hennar og bréfasamskipti njóti friðhelgi.