„Við leitum að sérfræðingum á Íslandi sem eru reiðubúnir að vinna og búa í Noregi,“ segir Jan Fredrik Hvam sem var staddur hér á landi í vikunni á vegum atvinnumiðlunarinnar Jobcrossing. Fyrirtækið auglýsti í atvinnublaði Morgunblaðsins sl. sunnudag eftir m.a. tölvunarfræðingum, verkfræðingum, tæknifræðingum og sérfræðingum tengdum trygginga- eða fjármálastarfsemi. Viðbrögðin við auglýsingunni voru mjög góð, yfir fimmtíu umsækjendur voru fljótir að svara en Jobcrossing segir næga vinnu að hafa í mörgum atvinnugreinum í Noregi.
Vantar verkfræðinga
Jan Fredrik segir efnahagsástandið í Noregi vissulega hafa orðið fyrir áfalli vegna kreppunnar en atvinnuleysi hafi þó ekki náð þeim hæðum sem spáð var og svo virðist sem atvinnumarkaðurinn sé þegar að rétta úr kútnum af nokkrum krafti. Skýringuna segir Jan Fredrik m.a. felast í því að hið opinbera er mjög stór atvinnuveitandi í Noregi – mun stærri en hér á landi.
Í Noregi vantar nú m.a. verkfræðinga til starfa þar sem ríkið leggur áherslu á uppbyggingu vegakerfis og annarra þátta grunnþjónustunnar. Einnig sé næga vinnu að hafa fyrir tölvunarfræðinga, kerfisfræðinga og forritara.