Sjávarhiti yfir meðallagi allt í kringum landið

Straummælir sem settur var í sjó á Hornbanka.
Straummælir sem settur var í sjó á Hornbanka. Hafrannsóknarstofnun

Sjávarhiti var yfir meðallagi allt í kringum landið í sumar. Héðinn Valdimarsson haffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að sumarið nú sé í þriðja sæti hvað þetta varðar, á eftir árunum 2003 og 2004. Töluvert er um að nýjar fisktegundir veiðast hér við landi í kjölfar þess að sjórinn hlýnar.

Það var ágúst sem fram fóru athuganir á ástandi sjávar umhverfis landið ásamt öðru á báðum skipum Hafrannsóknastofnunarinnar.

Sjávarhiti í hlýsjónum suður og vestur af landinu var yfir meðallagi, 7° - 12°C og seltan 35,10 - 35,27 á 50 m dýpi. Hlýsjór er sá kallaður sem kemur sunnan úr Atlantshafi.

Innflæði inn á miðin norðan við landið var allmikið og náði selturíkur hlýsjór með Norðurlandi austur fyrir Langanes. Hiti og selta efri sjávarlaga fyrir norðan land voru vel yfir meðallagi þessa árstíma. Á 50 m dýpi var hiti um 6-7°C og selta yfir 35.

Fyrir austan landið voru hiti og selta líkt og annars staðar vel yfir meðallagi síðustu áratuga miðað við árstíma.

Að sögn Héðins hefur sjór sunnan og vestan við land verið um það bil einni til einni og hálfri gráðu hlýrri síðustu 12 ár að meðaltali en áratuginn þar á undan.

Eftir að sjórinn hlýnaði fóru að veiðast hér við land ýmsar tegundir hlýsjávarfiska sem lítið eða ekki höfðu sést áður, svo sem skötuselur og makríll - sem mikið hefur verið í fréttum upp á síðkastið. Breytingin hefur orðið mikil á einum áratug. Kaldsjávartegundir hafa aftur á móti sést í minna mæli en áður og er loðna gott dæmi um það.

Á Bjarna Sæmundssyni var jafnframt lagt út straummælalögnum á Hornbanka sem hafa það að markmiði að mæla innflæði Atlantssjávar norður fyrir land. Mælingar þessar eru liður í alþjóðlegu verkefni, THOR, sem styrkt er af Evrópusambandinu. THOR verkefnið stendur næstu fjögur árin og snýst um rannsóknir á stöðugleika hinnar svonefndu hita-seltuhringrásar heimshafanna.


Í sama leiðangri fóru einnig fram straummælingar frá skipinu yfir landgrunnshlíðinni norðanlands og var það samstarfsverkefni Woods Hole Ocenographic Institution í Bandaríkjunum og Hafrannsóknastofnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert