Milli 15 og 20 sófasettum hefur verið stolið úr geymslugámum húsgagnaverslunarinnar Patta í Dugguvogi undanfarnar tvær nætur. Í fyrrinótt urðu starfsmenn varir við að 4-5 sófasettum hafði verið stolið úr gámi. Í nótt sem leið voru svo 10-12 sófasett til viðbótar tekin úr öðrum gámi.
Sófasettin eru öll leðurklædd og framleidd af CHEERS. Einn þriggja sófi og tveir stólar eru í hverju setti. Eitt settanna var svart að lit en öll hin ljósleit. Ljósu settin kosta nú tæplega 240 þúsund krónur á útsölu og það svarta 275 þúsund. Tjónið er því á fjórðu milljón króna.
Þórarinn Hávarðsson, sölustjóri Patta, sagði ljóst að þjófarnir hafi notað stóran flutningabíl við verknaðinn. Sófasettin voru geymt í 40 feta gámum fyrir utan verslunina. Sendibíl var lagt við dyr gámanna svo fremur þröngt var að athafna sig þar.
Gámunum var læst með öflugum hengilásum sem voru klipptir í sundur. Þegar að var komið í gærmorgun var ljóst að brotist hafði verið inn í einn gáminn og sófasettum sem geymd voru í honum verið stolið. Þjófarnir höfðu skilið eftir tjaldvagn sem geymdur var í gámnum, líklega vegna þess að þeir gátu ekki dregið hann burt.
Þórarinn kvaðst gruna að reynt yrði að koma sófasettunum úr landi. Ekki væri auðvelt að selja svo mörg ný sófasett í gegnum smáauglýsingar, auk þess sem þessi sófasett séu vel þekkt hér á landi. Þeim er öllum pakkað inn í bóluplast og umbúðirnar rækilega merktar Patta.
Hann kvaðst hafa haft samband við skipafélögin. Þar fengust þau svör að margir tómir gámar væru sendir á hverjum degi út i bæ undir búslóðir og annað. Það væri nánast útilokað að sannreyna hvað í gámunum fælist.
Tollurinn gerði raunar úttektir á sumum búslóðagámum. Það væri einkum ef eitthvað vekti sérstakar grunsemdir að slíkir gámar væru tæmdir.
Gunnar Baldursson, húsgagnabólstrari og eigandi Patta, sagði að fyrirtækið hafi verið með aðsetur í Dugguvogi í sex ár og þeir hafi aldrei orðið varir við neitt þessu líkt áður. Gunnar sagði aðspurður að eftir væri að athuga hvort þeir væru tryggðir fyrir tjóninu.
„Manni finnst óöryggið verst í þessu, að geta ekki verið með svona hluti í friði,“ sagði Gunnar.