Íbúar í miðborginni bregðast misjafnlega við tilmælum byggingarfulltrúa borgarinnar um að gerð hafi verið ástandsskoðun á ytra byrði húseigna þeirra og þeim gert að veita húsum sínum og görðum andlitslyftingu.
Margir íbúar brugðust öskureiðir við og hitastigið við Njálsgötu rauk upp um nokkrar gráður.
Sigurður Kristinsson íbúi við Njálsgötu spyr hvort það sé ekki í lagi að athuga hvernig sé heima hjá byggingarfulltrúa. Hann segist ekkert ætla að gera í framhaldi af bréfinu nema hlæja.
Unnur Guðjónsdóttir sem líka býr við götuna en fékk ekkert bréf vorkennir öðrum íbúum ekki að leggjast í viðhald og garðvinnu.
Hún segir að ef fólk sjái það ekki sjálft að það þurfi að þrífa kringum húsin verði yfirvöld að bregðast við. Þetta sé vandamál í miðbænum, oft sé rusl í kring sem kosti ekkert að taka upp. Sjálf vill Unnur hafa allt fínt og lætur sig ekki muna um að sópa götuna fyrir framan húsið og þrífa rennisteininn.
Steingerður Bjarnadóttir nágrannakona hennar er aftur á móti annarrar skoðunar þrátt fyrir að byggingafulltrúinn hafi ekki skrifað henni. Hún segir að gamalt fólk hafi byggt upp þetta gamalgróna hverfi og það hafi ekki heldur haft áhuga á garðvinnu. Hún segir ástæðulaust að hirta fólk og spyr hver eigi eiginlega að ráða? Þetta séu eignarlóðir! Hún segist eiga einn fimmta af lóðinni sinni og setji þess vegna bara blóm í kringum tröppurnar hjá sér. Það hafi alltaf verið friður á þeim bænum.
Unnur gefur lítið fyrir þau rök að ekki allir hafi efni á að leggjast í viðhald í ljósi efnahagsástandsins. Fólk eigi alltaf peninga fyrir sígarettum og áfengi.