Fréttaskýring: Allir á móti öllum í stjórn Álftaness

Hestar á beit á Álftanesi. Garðakirkja er í baksýn.
Hestar á beit á Álftanesi. Garðakirkja er í baksýn. mbl.is/Ómar

Margrét Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Álftaness og óháður bæjarfulltrúi eftir að hún sagði sig úr Álftaneshreyfingunni í lok júlí, hefur í fjórar vikur unnið hörðum höndum að því að koma á samstarfi með Álftaneshreyfingunni og Sjálfstæðisfélaginu með þjóðstjórnarfyrirkomulagi og segir að það sé eina lausnin á þeirri kreppu sem bæjarstjórnin standi frammi fyrir.

Margir viðmælendur eru ánægðir með þá ákvörðun bæjarstjórnar að hafa sagt Sigurði Magnússyni, bæjarstjóra og bæjarfulltrúa Álftaneshreyfingarinnar, upp störfum og segja að hann ætti að hætta í bæjarstjórninni. Eins þurfi að losna við Kristján Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúa Álftaneshreyfingarinnar, og Guðmund G. Gunnarsson, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisfélagsins, úr bæjarstjórninni. Þeir hafa verið lengi við stjórnvölinn og sumir tala um að þeir líti á sig sem kónga í ríkinu.

Þeir vísa slíkum fullyrðingum út í hafsauga, segja andstæðinga sína gera allt sem þeir geti til að grafa undan sér og það leysi ekki vanda bæjarstjórnar Álftaness að þeir stígi til hliðar. Hins vegar telur Guðmundur að það yrði til bóta að Kristján hætti og að sama skapi er Kristján á því að Guðmundur ætti að draga sig í hlé.

Allt upp í loft

Segja má að ákveðið stjórnleysi hafi ríkt á Álftanesi í nær tvo mánuði eða síðan samgönguráðuneytið úrskurðaði að Kristján Sveinbjörnsson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar, hefði rétt á því að sitja sem kjörinn bæjarfulltrúi til loka kjörtímabilsins. Kristján hætti störfum í desember í fyrra vegna persónulegra deilna í þeirri von að friður skapaðist um störf bæjarstjórnarinnar en sneri aftur í sumar í kjölfar úrskurðarins.

Endurkoma Kristjáns í bæjarstjórn og reyndar einnig vinnubrögð og framkoma Sigurðar Magnússonar, þáverandi bæjarstjóra, gerði það að verkum að Margrét Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, sagði sig úr Álftaneshreyfingunni. Þá reyndu Sigurður og Kristín Fjóla Bergþórsdóttir (Á) að mynda meirihluta með Sjálfstæðisfélaginu án árangurs. Í kjölfarið fóru fram viðræður fulltrúa Álftaneshreyfingarinnar og Margrétar um að taka aftur upp þráðinn en hún sleit viðræðunum 18. ágúst og óskaði sama dag eftir því að myndað yrði samstarf sex bæjarfulltrúa með nokkurs konar þjóðstjórnarfyrirkomulagi. Þessir sex bæjarfulltrúar virtust vera að ná saman eftir stöðugar viðræður frá 18. ágúst en á fimmtudag í liðinni viku lögðu bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar fram tillögur sem aðrir gátu ekki sætt sig við og þar með runnu samvinnuhugmyndir út í sandinn. Í kjölfarið sagði bæjarstjórnin bæjarstjóranum upp á fundi sínum í fyrrakvöld og forseti bæjarstjórnar sagði af sér embætti.

Sligandi skuldir

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur áhyggjur af stöðu mála í sveitarfélaginu Álftanesi, en skuldir sveitarfélagsins nema milljörðum og gert er ráð fyrir tæplega 90 milljóna króna hallarekstri í ár.

Í fyrra var tap sveitarfélagsins um 832 milljónir króna og nægja skatt- og þjónustutekjur ekki fyrir rekstrarútgjöldum. Sérstaklega hefur verið bent á kostnað vegna uppeldis- og fræðslumála, en hlutfall barna á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu er óvenjuhátt eða um 20% samanborið við um 12% annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir skömmu var tekin í notkun ný 25 m útisundlaug á Álftanesi, öldulaug, innilaug og lengsta vatnsrennibraut landsins. Samkvæmt ársreikningi 2008 nema skuldbindingar vegna mannvirkjanna um 2,5 milljörðum, miðað við 6% vexti og 30 ára leigusamning.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert