Báran, stéttarfélag, hefur sent frá sér ályktun þar sem þess er krafist að stjórnvöld komi á móts við heimilin og fólkið í landinu. Skorar Báran á stjórnvöld að skjaldborgin snúist um heimilin en ekki fjármagnseigendur og hér ríki réttlátt og siðprútt samfélag.
„Nú er komið nóg. Báran, stéttarfélag krefst þess að stjórnvöld komi á móts við heimilin og fólkið í landinu í þessu viðloðandi versnandi ástandi sem nú ríður yfir land og þjóð.
Almenningur í landinu hefur sýnt göfuglyndi og æðruleysi, tekið á sig launaskerðingar, atvinnumissi, auknar álögur, gjaldþrot og skerta þjónustu á meðan auðmenn þessa lands fá niðurfelldar skuldir og veigra sér ekki við að tala digurbarkalega um það í fjölmiðlum að það væri óábyrg meðferð á fé að greiða skuldir.
Það er ekkert lát á fréttum um niðurfellingu skulda þeirra sem peningana eiga og komu okkur í þessa slæmu stöðu sem sér ekki fyrir endann á, meðan húsnæði þeirra sem minna hafa er boðið upp og er almenningur að missa alla von og sér hreinlega ekki framtíðina fyrir sér hér á okkar ástkæru fögru fósturjörð Íslandi.
Orð skulu standa og nú skorar Báran, stéttarfélag á stjórnvöld að skjaldborgin snúist um heimilin en ekki fjármagnseigendur og hér ríki réttlátt og siðprútt samfélag."