Elsta kona heims látin

Gertrude Baines
Gertrude Baines

Gertrude Baines, elsta kona heims, er látin, 115 ára að aldri. Baines lést á sjúkrahúsi í Los Angeles í dag en þar hafði hún dvalið síðustu 11 ár ævi sinnar.

Gertrude Baines fæddist 6. apríl 1894 í Shellman í Georgíu og varð því 115 ára og 158 daga gömul.

Gertrude Baines varð elsta kona heims í janúar síðastliðnum þegar portúgölsk kona, Maria de Jesus, lést 115 ára að aldri.

Baines þakkaði trúrækni og heilbrigðu líferni langlífi sitt. Baines hvorki reykti né drakk áfengi um ævina.

Gertrude Baines komst í fréttirnar í nóvember í fyrra þegar hún varð elst blökkumanna til að taka þátt í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Baines sagði við það tækifæri að hún vonaðist til að verða fótafær árið 2012 svo hún gæti aftur kosið Barack Obama í embættið.

Vitað er um rúmlega 70 núlifandi einstaklinga sem eru eldri en 110 ára, þar af eru 62 konur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert