Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, er nýr formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar en hann tekur við af Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna.
Fram kemur á heimasíðu umhverfis- og samgöngusviðs, að Gísli hafi stjórnað fundi ráðsins á þriðjudag. Aðrar breytingar á skipan fulltrúa í ráðinu voru þær að Áslaug Friðriksdóttir, Sjálfstæðisflokki, var kjörin aðalmaður í stað Ragnars Snæs Ragnarsson og Kristján Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki, var kjörinn varamaður í stað Helgu Kristínar Auðunsdóttur.
Gísli Marteinn var formaður ráðsins eftir kosningar 2006 og aftur 2008. Síðastliðin misseri stundaði hann borgarrannsóknir í Edinborgarháskóla í Skotlandi og mun útskrifast með gráðuna MSc in The City í nóvember.
„Við þurfum að breyta samgöngumynstrinu í borginni, þannig að miklu fleiri fari um á hjólum, gangandi eða með strætó. Þannig bætum við loftið í borginni og drögum úr truflun frá umferð," er haft eftir Gísla Marteini á heimasíðunni.