Høgni Hoydal gagnrýnir Norðurlöndin

Høgni Hoydal og Steingrímur J. Sigfússon.
Høgni Hoydal og Steingrímur J. Sigfússon.

Færeyski stjórnmálamaðurinn Høgni Hoydal lýsti í ræðu í danska þinginu í vikunni miklum vonbrigðum með viðbrögð Norðurlandanna við fjármálahruninu á Íslandi. Sagði hann að norræn samstaða hefði ekki staðist prófraunina.

Høgni, sem er leiðtogi Þjóðveldisflokksins í Færeyjum, er einnig annar tveggja færeyskra þingmanna á danska þinginu. Í  umræðu um dönsku fjárlögin í vikunni sagði hann m.a. að á Norðurlöndunum væru allar forsendur til vinna náið saman við að skapa sjálfbær og samheldin samfélög. 

„Þess vegna vil ég leyfa mér að lýsa miklum vonbrigðum með þann skort á samvinnu sem birtist þegar draga þarf lærdóm af núverandi fjármálakreppu og viðbrögðum við henni. Íslenskir vinir okkar hafa - ásamt Írlandi og Eystrasaltsríkjunum - þurft að gjalda fyrir oftrúna á gerviverðmæti og hrunadans fjármagnsins á alþjóðamarkaðnum. 

En þegar norræn samstaða stóð frammi fyrir þessari prófraun, þá völdu menn að taka ekki höndum saman um aðstoð við Íslendinga, sem hefði þá verið hægt að byggja á lýðræðislegum og félagslegum gildum. Í stað þess völdu stóru norrænu löndin, að taka þátt í lausn ásamt Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem leggur allar byrðarnar á íslenska velferðarkerfið, sem síðan fær reikninginn vegna gerða einstaklinga og fyrirtækja. Því fylgja kröfur um niðurskurð á grunnþjónustunni fyrir þá sem lakast standa og sameiginlegum verkefnum þjóðarinnar.

„Mín ósk er sú, að Norðurlöndin nýti sér þetta upplagða tækifæri til að styrkja samvinnu sína og byggja á sameiginlegum grundvelli hinna varanlegu og sjálfbæru gilda," sagði Högni.

Ræða Høgna Hoydal í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert