Ítreka kröfur um aðgerðir

Hagsmunasamtök heimilanna, talsmaður neytenda, Félag fasteignasala, Húseigendafélagið, Búseti á Norðurlandi og Lögmenn Laugardal hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem ítrekað er ákall um að stjórnvöld grípi til almennra aðgerða vegna vanda heimila og lántakenda.

Segjast þessir aðilar enn á ný bjóða fram krafta sína og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna með stjórnvöldum og öðrum hagsmunaðilum að lausnum sem þjóðarsátt getur orðið um.

Vísað er til ákalls frá 11. febrúar um almennar, sem hafi ekki fengið hljómgrunn hjá stjórnvöldum. „Nú eru ástand og horfur sýnu ískyggilegri. Greiðslubyrði verulegs hluta fjölskyldna er orðin eða er að verða allt of þung til að afkomuöryggi almennings sé tryggt. Heimili landsins hafa orðið fyrir hamfaratjóni vegna gengisfalls krónunnar og verðtryggingar húsnæðislána og neytendalána," segir í yfirlýsingunni.

Þá segir, að beita verði almennum aðgerðum í eitt skipti til að koma í veg fyrir að fjöldi fólks lendi í þroti og greiðslugeta og greiðsluvilji hverfi og til að stuðla að því að fasteignaviðskipti verði heilbrigð og eðlileg. 

„Veruleg niðurfærsla eða leiðrétting höfuðstóls íbúðaveðlána er óhjákvæmileg. Jafna verður hamfaratjóninu með sanngjörnum hætti á hlutaðeigendur. Það næst aldrei sátt og friður með því að lántakendur beri einir obba tjónsins en lánveitendur séu með allt sitt á þurru. Slíkt færi í bága við gott viðskiptasiðferði og réttlætiskennd þorra fólks."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka