Kynna nýja áætlun norrænna menningarmálaráðherra

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra Skapti Hallgrímsson

Katrín Jakobsdóttir, menntamála- og samstarfsráðherra Norðurlandanna, mun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tórontó í dag kynna nýja áætlun norrænu menningarmálaráðherranna í svokölluðu hnattvæðingarferli en hún á að auka veg norrænnar menningar á alþjóðavettvangi.

Þá mun hún fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar taka þátt í að kynna High Five Toronto, nýja styrkjaáætlun á vegum Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins, sem miðar að því að efla dreifingu og kynningu á norrænum kvikmyndum sem eru að fara á alþjóðlegan markað, að því er segir í tilkynningu frá ráðherranefndinni.  

Mun Katrín  kynna fyrir ýmsum forkólfum í kanadísku menningarlífi, samkvæmt tilkynningu, hnattvæðingaráætlun menningarmálaráðherranna, sem nær fram til ársins 2012 og kveður á um aðgerðir til að markaðssetja norrænar kvikmyndir, tölvuleiki, bókmenntir, hönnun og arkitektúr. Fyrsta kynningarátakið er á kvikmyndahátíðinni í Torontó, en einnig verður efnt til norrænna viðburða á heimssýningunni í Sjanghæ 2010 þar sem norræn hönnun og landslagsarkitektúr verða í brennidepli.

Á morgun efnir Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn svo til kynningar fyrir alþjóðleg sölu- og dreifingarfyrirtæki á 13 norrænum kvikmyndum sem eru sýndar á kvikmyndahátíðinni í Tórontó, svo og nýjum dreifingarstyrkjum fyrir erlenda dreifingaraðila sem kaupa réttindi til að dreifa þeim. Meðal þeirra eru tvær íslenskar kvikmyndir, Sólskinsdrengurinn eftir Friðrik Þór Friðriksson og The Good Heart eftir Dag Kára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert