Óvissu um álver á Bakka verður að ljúka

Framsýn bindur vonir við að álver rísi á Bakka á …
Framsýn bindur vonir við að álver rísi á Bakka á komandi árum. Með því myndi skapast fjöldi starfa á Norðurlandi. Mynd Framsýn

Framsýn - stéttarfélag telur afar mikilvægt að viljayfirlýsing um uppbyggingu álvers á Bakka verði endurnýjuð með það að markmiði að álver rísi sem fyrst á Norðurlandi. Þeirri óvissu sem ríkt hefur um framhald verkefnisins verði að ljúka.

Í ályktun stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar sem samþykkt var í gærkvöld segir að skilaboð stjórnvalda varðandi verkefnið verði að vera skýr þar sem yfirlýsingar ráðherra hafi verið misvísandi og skaðað mjög framvindu málsins. Þegar miklir fjármunir og búsetuskilyrði fólks eru í húfi sé slíkt með öllu óásættanlegt.

„Á þessum tímamótum verður Alcoa einnig að gefa út afdráttarlausa yfirlýsingu um það hvort þeir ætli sér að byggja upp orkufrekan iðnað á Bakka eða ekki. Þær miklu fjárfestingar sem heimamenn og samstarfsaðilar hafa ráðist í, varðandi öflun á orku til atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum, verða að fara skila tekjum til baka. Menn hafa einfaldlega ekki efni á því að bíða lengur,“ segir í ályktun Framsýnar.

Ennfremur segir að ljóst sé að væntingar heimamanna til verkefnisins séu miklar. Enn á ný, virðist gilda önnur sjónarmið hjá ráðamönnum þjóðarinnar varðandi uppbyggingu atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu en gilda eiga á landsbyggðinni. Slík atvinnustefna brjóti gegn öllum lögmálum um eðlilega og sanngjarna atvinnuuppbygginu í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka