Reykingar valda þrefalt fleiri dauðsföllum í Bandaríkjunum en samanlagður fjöldi dauðsfalla vegna allra slysa. Undir slys eru flokkuð umferðarslys, eldsvoðar, morð, sjálfsvíg, flugslys, drukknanir, og önnur slys á landi og heimilum. Þessar upplýsingar voru lagðar fram á Tóbaksvarnaþingi Læknafélags Íslands í dag.
Í rannsókninni kom fram að árið 2000 fórust 151 þúsund Bandaríkjamenn í slysum af ýmsu tagi, en sama ár létust 512 þúsund Bandaríkjamönnum af reykingasjúkdómum.
Á þinginu kom fram að 81% líkur eru á að 35 ára einstaklingur sem ekki reykir nái 70 ára aldri. Það eru hins vegar ekki nema 58% líkur á að einstaklingur sem reykir nái 70 ára aldri. Að meðaltali styttir reykingamaður ævi sína um 10 ár með því að reykja.
Talið er að fast að 400 Íslendingar látist árlega úr afleiðingum reykinga. Ef marka má bandaríska rannsókn á áhrifum óbeinna reykingum má áætla að 30-40 Íslendingar deyi árlega úr óbeinum reykingum, þ.e. fólk sem ekki reykir en andar að sér tóbaksreyk frá öðrum. Þetta er stærri hópur en lætur lífið hér á landi í bílslysum ár hvert.