Samið um fjármögnun álvers í Helguvík

Norðurál hefur samið við bankana BNP Paribas, Societe Generale og ING um umsjón með fjármögnun byggingar  álversins í Helguvík. Bankarnir munu leiða verkefnafjármögnun vegna framkvæmdanna á alþjóðlegum lánamörkuðum, að því er segir í tilkynningu frá Norðuráli.
 

Áætlað er að álframleiðsla hefjist í Helguvík síðla árs 2011.

„Samkvæmt nýgerðum stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, SSF, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvers í Helguvík.

Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009. Sveitarfélög og önnur stjórnvöld tryggi að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allar leyfisveitingar og greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er," að því er segir í tilkynningu frá Norðuráli.
 
Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Norðuráls, segir í tilkynningu að fyrirtækið hafi  átt árangursríkt samstarf við þessa banka vegna fjármögnunar  framkvæmda við álverið á Grundartanga allt frá árinu 1997 og þeir sýna fyrirhugaðri framkvæmd í Helguvík mikinn áhuga. 

„Við leggjum allt kapp á að byggingaframkvæmdir við þetta gríðarlega mikilvæga verkefni komist á fullt skrið ” segir Ragnar í fréttatilkynningu.

„Það er hart lagt að okkur úr öllum áttum að þessari framkvæmd miði áfram vegna þeirra starfa sem hún mun skapa og þeirra jákvæðu áhrifa sem hún mun að hafa á íslenskt efnahagslíf.”
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert