Vonir standa til þess að innan fárra ára verði hægt að bjóða upp á bólusetningu gegn reykingum. Unnið hefur verið að þróun bóluefnis undanfarin ár, bæði gegn nikótíni og kókaíni.
Magnús Jóhannesson prófessor sagði frá þessu verkefni á Tóbaksvarnarþingi í gær. Hann sagði að hugmyndin á bak við bólusetningu gegn reykingum væri sú að með því að koma bóluefni fyrir í blóði myndi bóluefnið ráðast gegn nikótíninu og eyða því áður en það kæmist upp í heila. Ef nikótínið kæmist ekki upp í heila yrðu áhrifin sem reykingamenn sækjast eftir með reykingum engin og því væri tilgangslaust fyrir þá að reykja.
Magnús sagði að árangurinn af bólusetningu væri enn ekki nægilega góður, en tilraunir á þessu sviði myndu halda áfram og vonast væri eftir að hægt yrði að bjóða reykingamönnum upp á að gangast undir bólusetningu innan nokkurra ára.
Magnús hvatti eindregið til þess að Íslendingar tækju forystu í reykingavörnum í heiminum og settu sér það markmið að taka tóbak úr almennri sölu. Ályktun þessa efnis var samþykkt á Tóbaksvarnarþingi Læknafélags Íslands.