Flugslysaæfing verður haldin á flugvellinum á Egilsstöðum í dag. Um 200 manns taka þátt í æfingunni. Markmiðið með flugslysaæfingum er að leiða saman þá viðbragðsaðila sem hafa hlutverki að gegna við hópslys og einnig er á sama tíma sett upp fræðsla á hópslysaviðbúnaði og virkni flugslysaáætlunar sannreynd á viðkomandi flugvelli.
Þetta er þriðja flugslysaæfingin sem Flugstoðir standa fyrir á þessu ári. Gangur hverrar æfingar fyrir sig er þannig að kveikt er í „flaki” og í framhaldinu hringir viðkomandi flugturn í Neyðarlínuna sem boðar viðbragðsaðila.
Fyrsta skref er að slökkva í flakinu og er það gert miðað við að viðbragðsaðilar viti ekkert um „handrit” æfingarinnar þ.e. hversu margir „farþegar” eru „slasaðir” og hversu mikið. Hver viðbragðsaðili kemur svo inn í æfinguna, hver af öðrum, og vinnur sitt verk í samvinnu við hina. Búið er að þolendum og þeir flokkaðir í ákveðna flokka eftir áverkum og þeim komið undir réttar hendur á sem fljótlegasta og öruggastan hátt.
Flugstoðir hafa yfirumsjón með flugslysaæfingum á Íslandi, samstarfsaðilar eru ríkislögreglustjóri, Rauði Krossinn, Landspítali, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Slökkvilið Akureyrar, rannsóknarnefnd flugslysa, Landhelgisgæslan, Biskupsstofa, Neyðarlínan og fleiri.