Uppákoma varð í gærdag í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands áður en haldið var á TF-LIF að Gufuskálum, þar sem fram fór æfing alþjóðabjörgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Til stóð að tveir starfsmenn Kastljóss fengju að fara með þyrlunni – ásamt öðrum frá Morgunblaðinu til að fylgjast með æfingunni.
Skömmu fyrir flug urðu orðaskipti milli forstjóra Gæslunnar og starfsmanna Kastljóss sem urðu til þess að þeir síðarnefndu hurfu á braut. Upp úr krafsinu kom að forstjórinn, Georg Lárusson, hafði sagt að sér væri það ekki sérstök ánægja að þeir færu með þyrlunni, sökum umfjöllunar Kastljóss um umdeilda ráðningu þyrluflugmanns.