Gegn markmiðum Seðlabanka

Magnús Árni Skúlason, sem situr í bankaráði Seðlabanka Íslands fyrir hönd Framsóknarflokksins, hafði samband við stóran hluthafa í stoðtækjaframleiðandanum Össuri og starfsmenn lyfjafyrirtækisins Actavis með það fyrir augum að benda þeim á heppilegan viðskiptaaðila (miðlara) með gjaldeyri erlendis. Um er að ræða breska miðlarafyrirtækið Snyder, en stjórnendur þess eru vinir Magnúsar Árna.

Magnús Árni hafði samband við Actavis fyrir rúmum tveimur vikum til að bjóða þeim þjónustu Snyder, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Magnús lagði sig því fram um að koma á viðskiptasambandi milli Snyder og Actavis og sat fundi milli fyrirtækjanna.

Bauð upp á miðlun og gjaldeyriskaup

Það sem Snyder bauð fyrirtækjunum upp á var miðlun og sú þjónusta að kaupa gjaldeyri erlendis inn á reikning, og afhenda krónur hér á landi, sem eru hefðbundin aflandsviðskipti. Tekjugrundvöllur slíks viðskiptasambands eru gjaldeyrishöftin, en það er einmitt m.a. í verkahring Seðlabanka Íslands að útbúa áætlun um afnám gjaldeyrishafta í skrefum.

Fulltrúar stærstu útflutningsfyrirtækja á Íslandi, m.a. Össurar og Actavis, voru boðaðir á sérstakan fund í Seðlabankanum í sumar. Um var að ræða þau fyrirtæki sem njóta sérstakrar undanþágu frá gjaldeyrishöftunum en það eru fyrirtæki sem eru með yfir 80 prósent af tekjum sínum í erlendri mynt. Var þess farið vinsamlega á leit við þessi fyrirtæki að þau létu af aflandsviðskiptum með gjaldeyri, þó þau væru ekki ólögleg, þar sem þau stríddu gegn markmiðum reglnanna.

Magnús Árni Skúlason vildi í gær ekkert láta hafa eftir sér um málið.

Í hnotskurn
» Magnús Árni var kjörinn aðalmaður í bankaráð Seðlabankans af Alþingi hinn 11. ágúst síðastliðinn.
» Fundur hans og starfsmanna Snyder með starfsmönnum Actavis var fyrir rúmum tveimur vikum.
» Ekkert liggur fyrir sem bendir til ólögmætrar háttsemi af hálfu Magnúsar Árna.
Magnús Árni Skúlason.
Magnús Árni Skúlason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert