Fyrsti landsfundur Borgarahreyfingarinnar hófst á Grand Hóteli í morgun. Í skýrslu stjórnar, sem Baldvin Jónsson, formaður Borgarahreyfingarinnar, flutti, segir m.a. að Borgarahreyfigin sé ung, sem sjáist fjölmörgum mistökum sem gerð hafi frá því flokkurinn náði frábærum árangri í alþingiskosningunum.
„Mistökum sem ég vil leyfa mér að nefna byrjendamistök, mistökum sem að ég er sannfærður um að við höfum lært mikið af og munu verða til þess að tukta okkur til og styrkja í pólitísku baráttunni sem framundan er," sagði Baldvin.
Hann sagði að vandi hreyfingarinnar undanfarna mánuði hefði að miklu leyti til legið í algerum skorti á innra skipulagi starfsins. Það sé hlutverk landsfundarins að bæta úr því.
Baldvin sagði að framundan væri haustþing. „Þar verðum við að vinna sem ein kraftmikil heild ef við ætlum okkur að ná því að vera afl til góðs í samfélaginu. Afl sem getur raunverulega tekist á við áratuga gamlar valdaklíkur og viðskiptablokkir, sem hér öllu stjórna og hafa gert um langa hríð.
Við erum að berjast við blokkir sem vilja einkavæða auðlindirnar okkar alfarið og eru við það að ljúka fyrsta hluta ferlisins, þar sem að til stendur að afhenda Magma Energy núna á þriðjudaginn komandi, hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Og það á kjörum sem eru algerlega ósamþykkjandi og láta máltækið „lítið út og restin eftir minni“ hljóma sem skynsamlega viðskiptahætti.
Við verðum að berjast gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stýri hér áfram öllum hnútum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við, ásamt fjölda annarra, börðumst saman, og komum algerlega vanhæfri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá völdum.
Við valdasprotanum tók ríkisstjórn sem gaf sig út fyrir félagshyggju, en hefur í litlu sem engu breytt út frá stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem á undan sat. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt að hún er algerlega jafn vanhæf þeirri fyrri þegar kemur að lausnum á vanda heimilanna, enda ekki skrítið. Hún tók einfaldlega við tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeim aðgerðarpakka sem að hann hafði þegar lagt fram og samþykkti að framfylgja honum að öllu leyti að virðist, erlendum auðhringjum til mikillar ánægju vænti ég," sagði Baldvin m.a.