Rústabjörgunaræfingu á Gufuskálum lokið

Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Gufuskálum.
Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Gufuskálum. Ljósmynd/Landsbjörg

Æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar sem staðið hefur yfir síðan á fimmtudag á Gufuskálum á Snæfellsnesi lauk fyrir hádegið. Í kvöld kemur í ljós hvort sveitin fái vottun sem fullgild alþjóðleg björgunarsveit.

Samkvæmt upplýsingum frá Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, gekk sveitinni vel að leysa þau verkefni sem fyrir hana voru lögð. Unnið var á vöktum við hífingar, stífingar, línuvinnu, stjórnun aðgerða og uppsetningu og viðhaldi búða, svo fátt sé nefnt.

Í dag verður gengið frá búðum sveitarinnar og búnaði en farangur hennar í útkalli vegur yfir tíu tonn.

Viðstaddir æfinguna voru 10 aðilar frá INSARAG, sem eru samtök alþjóðlegra rústabjörgunarsveita sem starfa undir hatti Sameinuðu þjóðanna, og var þeirra hlutverk að meta getu sveitarinnar. Þeir sitja nú yfir bókum sínum en í kvöld kemur í ljós hvort sveitin hafi staðist þær kröfur sem INSARAG gerir til fullgildra alþjóðlegra björgunarsveita.

Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Gufuskálum.
Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Gufuskálum. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert