Daníel Sigurðsson, sem er margfaldur Íslandsmeistari í ralli, stefnir á að taka þátt í lokaumferð heimsmeistarakeppninnar í ralli sem fram fer í Wales 22.-25. október. Telur hann ekki ólíklegt að hann sé fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt í keppninni. „Ég man alla vega ekki eftir að við höfum öðlast keppnisrétt frá því að ég fór að fylgjast með 1983," segir hann.
Daníel hefur keppt í Bretlandi sl. tvö ár og hefur m.a. tekið þátt í Bresku meistarakeppninni. Með þátttökunni nú segir hann gamlan draum rætast.
„Æðsta markmiðið hlýtur að vera að keppa á heimsmeistaramóti og geta miðað sig við þá bestu." Og þó hann taki að þessu sinni eingöngu þátt í 12. og síðustu umferð heimsmeistarakeppninnar er hann vel sáttur. „Mér finnst það vera góð byrjun að komast í eina umferð."