Magnús Árni Skúlason, sem situr í bankaráði Seðlabankans, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að tilgangur hans með því að reyna að koma íslenskum fyrirtækjum í aflandsviðskipti með gjaldeyri, hafi ekki verið að höndla með krónur.
Magnús Árni sagðist ekki hafa grafið undan krónunni með þessu móti. Haft var eftir honum, að hann íhugi nú málaferli á hendur Morgunblaðinu fyrir meiðyrði.
Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að Magnús Árni hafði samband við stóran hluthafa í stoðtækjaframleiðandanum Össuri og starfsmenn lyfjafyrirtækisins Actavis með það fyrir augum að benda þeim á heppilegan viðskiptaaðila (miðlara) með gjaldeyri erlendis. Um var að ræða breska miðlarafyrirtækið Snyder.
Þá kom fram að á fundi fulltrúa Actavis og Snyder, sem Magnús Árni sat, hafi Snyder boðið upp á miðlun og þá þjónustu að kaupa gjaldeyri erlendis inn á reikning, og afhenda krónur hér á landi, sem eru hefðbundin aflandsviðskipti. Tekjugrundvöllur slíks viðskiptasambands séu gjaldeyrishöftin.
Magnús Árni sagði við Ríkisútvarpið, að Snyder hafi viljað eiga gjaldeyrisviðskipti við íslenska banka og viðskipti við þau fyrirtæki sem séu á undanþágulista Seðlabankans. Um hafi verið að ræða beina fjárfestingu í fullu samráð við Seðlabanka Íslands. Einnig viðskipti með austurevrópska gjaldmiðla sem íslensku bankarnir versli ekki með.
Fulltrúar stærstu útflutningsfyrirtækja á Íslandi, m.a. Össurar og Actavis, voru boðaðir á sérstakan fund í Seðlabankanum í sumar. Um var að ræða þau fyrirtæki sem njóta sérstakrar undanþágu frá gjaldeyrishöftunum en það eru fyrirtæki sem eru með yfir 80 prósent af tekjum sínum í erlendri mynt. Var þess farið vinsamlega á leit við þessi fyrirtæki að þau létu af aflandsviðskiptum með gjaldeyri, þó þau væru ekki ólögleg, þar sem þau stríddu gegn markmiðum reglnanna.