Tillaga þingmanna féll

Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir, þingmenn Borgarahreyfingarinnar, á landsfundinum í …
Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir, þingmenn Borgarahreyfingarinnar, á landsfundinum í dag. mbl.is/Ómar

Samþykkt var á landsfundi Borgarahreyfingarinnar í dag að ganga út frá tillögum að lögum hreyfingarinnar, sem hópur undir forustu Jóns Þórs Ólafssonar lagði fram. Tillaga að samþykktum Borgarahreyfingarinnar, sem þingmenn og formaður hreyfingarinnar stóðu m.a. að, féll hins vegar í atkvæðagreiðslu á fundinum.

Greidd voru atkvæði um það á fundinum með hvora tillöguna skyldi unnið áfram. Alls greiddi 91 fundarmaður atkvæði. 54 greiddu atkvæði með tillögum Jóns Þórs og félaga hans eða 59,3%, 32 greiddu atkvæði með hinni tillögunni eða 35,2% og 5 seðlar voru auðir.

Nú er verið að ræða breytingartillögur við tillöguna, sem var samþykkt. Stjórnarkjör fer fram síðar á fundinum.

Í tillögunni, sem samþykkt var að vinna með, er m.a. gert ráð fyrir að félagar skrái sig formlega í Borgarahreyfinguna. Tilgangur Borgarahreyfingarinnar sé að ná fram lýðræðisumbótum á Íslandi með virkri þátttöku borgaranna, valddreifingu, gegnsæi og að menn sæti ábyrgð.

Í tillögunni, sem var hafnað, var m.a. gert ráð fyrir að ekki yrði haldið sérstaklega utan um félagaskrá Borgarahreyfingarinnar. Markmið hreyfingarinnar sé  að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskrár í framkvæmd og hún skuli leggja sig niður þegar markmiðunum sé náð eða augljóst að þeim verði ekki náð.

Aðstandendur síðarnefndu tillögunnar segja á heimasíðu Borgarahreyfingarinnar, að þeir telji að þessar grasrótarsamþykktir muni tryggja að hreyfingin starfi áfram á þeim grunni sem að hún lagði af stað með, að hún sé hreyfing en ekki stjórnmálaflokkur. Hinar tillögurnar  geri hreyfinguna að tiltölulega hefðbundnum stjórnmálaflokki.

Tillagan sem var samþykkt 

Tillagan sem var felld 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka