Líkir íslenska bankahruninu við mál Madoffs

Eva Joly.
Eva Joly. mbl.is/Ómar

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara í bankahrunsmálum, segir við breska blaðið Sunday Times, að ýmislegt sé líkt með íslenska bankahruninu og máli fjársvikarans Bernards Madoffs í Bandaríkjunum.

Þannig hafi alþjóðlegar eftirlitsstofnanir ekki sinnt aðvörunarljósum, sem gáfu til kynna að ekki væri allt með felldu með fjárhagslega heilsu íslensku bankanna og á sama hátt hafi bandarískar eftirlitsstofnanir hunsað vísbendingar um að ekki væri allt með felldu í fyrirtæki Madoffs.  

Joly segir, að breska fjármálaeftirlitinu hafi borið skylda til að fylgjast með starfsemi íslensku bankanna í Bretlandi og því verði það að axla ábyrgð á því hvernig fór. Það sama þurfi stjórnvöld í Hollandi að gera.  

„Það er afar mikilvægt fyrir lítið land eins og Ísland, sem hefur gengið gegnum reynslu sem hefur breytt lífi allra sem þar búa, að fá svör," segir Joly við Sunday Tmes. „Stjórnvöld í Reykjavík þurfa ekki aðeins að svara þessum spurningum heldur einnig stjórnvöld í Lundúnum og Amsterdam."

Joly segir, að Seðlabanki Íslands hafi komið því á framfæri árið 2007, að hann gæti ekki veitt íslensku bönkunum fjárhagslegt skjól ef eitthvað færi úrskeiðis. Þá hafi sérfræðingar bent á öll þau vandamál sem blöstu við. „Þetta var alveg eins og í máli Madoffs: aðvörunarljósin loguðu," segir hún.  

Fram kemur í frétt Sunday Times, að íslensk stjórnvöld séu í þann veginn að samþykkja alþjóðlegan framsalssamning, sem hægt yrði að nota til að draga hugsanlega brotamenn fyrir dóm á Íslandi. Hins vegar sé ljóst að ekki hafi allt, sem orkaði tvímælis í íslensku fjármálastarfseminni, varðað við íslensk lög. 

„Ég er þess fullviss, að okkur takist að vinna okkar starf undir þeim reglum, sem gilda," segir Joly við blaðið. „Það er oft afar lítið bil á milli slæmra viðskiptahátta og ólöglegra viðskiptahátta."

Frétt Sunday Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert