Samið við kröfuhafa Glitnis

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Þorsteinn Þorsteinsson, formaður samninganefndar íslenska …
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Þorsteinn Þorsteinsson, formaður samninganefndar íslenska ríkisins í samningaviðræðum við skilanefndir föllnu bankanna, við undirritunina í dag. mbl.is/Ómar

Íslandsbanki, skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, og íslenska ríkið hafa undirritað samninga um uppgjör á milli gamla og nýja bankans og endurfjármögnun Íslandsbanka.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka byggja samningarnir á því rammasamkomulagi sem kynnt var 20. júlí og felur í sér að skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, á þess kost að eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka fyrir 30. september nk. eða fá greiðslu í formi skuldabréfs, útgefnu af Íslandsbanka, og kauprétti á allt að 90% af hlutafé í bankanum á árunum 2011-2015.

Þá hefur ríkissjóður nú veitt Íslandsbanka eigið fé í formi ríkissskuldabréfa að fjárhæð 65 milljarða króna. Bankinn stendur þar með á traustum fjárhagslegum grunni með u.þ.b. 12% eiginfjárhlutfall.

Velji skilanefnd Glitnis þann kost að eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka  yrði hlutur íslenska ríkisins 5% og stór hluti eiginfjárframlags þess gengi til baka. Ríkið mun þó áfram veita bankanum stuðning með eignarhlut sínum og 25 milljörðum króna í formi víkjandi láns.

Nýti kröfuhafar sér ekki þennan kost mun íslenska ríkið áfram verða eigandi bankans. Greiðsla vegna yfirfærðra eigna verður þá í formi skuldabréfs sem Íslandsbanki gefur út. Að auki munu kröfuhafar fá forkaupsrétt á allt að 90% hlutafjár í bankanum á árunum 2011 til 2015 á kjörum sem tryggja ríkinu eðlilegt endurgjald fyrir fjárfestingu sína í bankanum. 

Sama stjórn áfram 

Núverandi stjórnarmenn munu sitja áfram í stjórn bankans. Í stjórn bankans sitja: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, formaður, Guðmundur R. Jónsson, Katrín Ólafsdóttir, Martha Eiríksdóttir og Ólafur Ísleifsson.  

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu að um sé að ræða  mikilvægan áfanga í uppbyggingu íslenska fjármálakerfisins. Nú eigi kröfuhafar eftir að ákveða hvort þeir eignist bankann strax eða hvort þeir fái greiðslu í formi skuldabréfs ásamt kauprétti á bankanum. Báðar þessar leiðir skapi bankanum trausta og spennandi framtíð. 

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir ánægjulegt að tekist hafi samkomulag um uppgjör vegna þeirra eigna sem færðar voru frá Glitni til Íslandsbanka á sínum tíma. „Við teljum samkomulagið fela í sér sanngjarna niðurstöðu þar sem hagsmunir kröfuhafa eru varðir eins og kostur er.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert