Þingmenn Borgarahreyfingarinnar gagnrýndir

Frá landsfundi Borgarahreyfingarinnar í gær.
Frá landsfundi Borgarahreyfingarinnar í gær. mbl.is/Ómar

Greinilegt er af bloggfærslum félaga í Borgarahreyfingunni, sem sátu landsfund flokksins í gær, að ekki eru allir á eitt sáttir. Ýmsir verða til þess að gagnrýna þingmenn hreyfingarinnar fyrir að sitja ekki fundinn eftir að tillaga að lagabreytingum, sem þeir stóðu að ásamt fleirum var felld.

Guðmundur Andri Skúlason, sem var kjörinn í stjórn Borgarahreyfingarinnar á landsfundinum, segir m.a. að þingmennirnir hafi neitað að taka þátt í lýðræðislegri umræðu um málefni og samþykktir hreyfingarinnar.

„Þau hlupu á dyr á miðjum fundi, af því að þau voru gagnrýnd. Lögðust í gólfið og létu illa, af því að þau fengu ekki öllu ráðið," segir Guðmundur Andri.

Þá segir Heiða B. Heiðars, sem einnig var kjörin í stjórn Borgarahreyfingarinnar, að það hafi verið sárt að sjá á eftir þingmönnum og fylgismönnum þeirra strunsa út af fundinum í stað þess að sitja fundinn og taka þátt í að vinna að breytingum á samþykktunum sem lágu fyrir fundinum.

„Þau tilkynntu að þau yrðu frammi til viðræðna fyrir hverja þá sem kysu að ræða málin við þau. En fundurinn var í fullum gangi og að sjálfsögðu kusu flestir að vinna," segir Heiða.

Baldvin Jónsson, fráfarandi formaður Borgarahreyfingarinnar, segir hins vegar að hann sé leiður yfir því að hreyfing eins og Borgarahreyfingin  geti samþykkt yfir sig lagabreytingar þar sem fram komi fasískar tillögur sem setja eiga bæði þinghóp og alla félaga hreyfingarinnar undir dóm, ef svo ber undir.

„Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig slíkar hugmyndir ná fram að ganga í hreyfingu, sem sérstaklega kenndi sig við lýðræðisumbætur og persónukjör," segir Baldvin.

Heimasíða Borgarahreyfingarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka