Vonar að kröfuhafar trúi á bankann

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og …
Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Þorsteinn Þorsteinsson, formaður samninganefndar ríkisins. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir ágætar horfur á því að kröfuhafar Glitnis velji þá leið að verða eigendur að stærstu hluta hans, í stað þess að fá uppgert með skuldabréfi og kauprétti í bankanum.

„Við höfum ástæðu til að ætla að það horfi ágætlega með það. Menn væru ekki að bjóða upp á þessa leið nema þeir hefðu góða ástæðu til að ætla að kröfuhafarnir gangi að henni. Ég held að hún sé í raun hagstæð fyrir báða aðila,“ sagði Steingrímur eftir undirritun uppgjörssamnings milli skilanefndar Glitnis, Íslandsbanka og ríkisins í dag.

„Það er ekki bara mikilvægt að loksins er þessum áfanga náð, heldur er það líka mikilvægt að það gerist með samkomulagi. Þá er úr sögunni hætta á áframhaldandi ágreiningi við að ljúka þessu, svo sem með úrskurði eða einhverjum einhliða aðgerðum.“

Steingrímur segist vona að kröfuhafar Glitnis hafi þá trú á Íslandsbanka og sjái þá möguleika sem eru í íslensku hagkerfi, að þeir sjái hag sínum borgið í því að eiga hlut í Íslandsbanka, fremur en að taka við skuldabréfi og fá þannig uppgert. Íslandsbanki leggi upp vel fjármagnaður með nokkuð trausta stöðu.

Þá segir hann að það yrði hagstætt fyrir íslenska ríkið ef kröfuhafarnir vildu eiga Íslandsbanka, þar sem þá þurfi að binda mun minna fé í endurreisn bankakerfisins en áður stefndi í.

Ríkið hefur þegar lagt Íslandsbanka til 65 milljarða króna eiginfjárframlag. Velji kröfuhafarnir þann kost að gerast eigendur allt að 95% í Íslandsbanka gengur það til baka. Þess í stað myndi ríkið aðstoða við fjármögnun bankans með 25 milljarða króna víkjandi láni til hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert