Áhrifamenn innan Framsóknarflokksins hvöttu Magnús Árna Skúlason til að segja af sér sem fulltrúi flokksins í bankaráði Seðlabankans, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Eins og Morgunblaðið greindi frá á laugardag hafði Magnús samband við stóran hluthafa í Össuri og starfsmenn Actavis með það fyrir augum að benda þeim á heppilegan miðlara með gjaldeyri erlendis.
Um er að ræða breska miðlarafyrirtækið Schneider, en stjórnendur þess eru vinir Magnúsar Árna. Viðskipti í þessum anda eru á skjön við gjaldeyrismarkmið Seðlabankans.
Magnús sendi frá sér yfirlýsingu undir kvöld á laugardag þar sem hann fór þess á leit við Alþingi að sér yrði veitt lausn frá störfum sem bankaráðsmaður.
„Ég er sammála þeirri ákvörðun sem Magnús tók sem ég tel að hafi verið sú farsælasta fyrir hann sjálfan og flokkinn,“ segir Eygló Harðardóttir, þingmaður og ritari Framsóknarflokksins.
Hallur Magnússon, sem lengi hefur verið virkur í starfi flokksins, bloggaði um málið og hvatti Magnús þar til að segja af sér. „Hann átti engan annan kost í stöðunni. Einhverra hluta vegna eru gerðar ríkari siðferðiskröfur til Framsóknar en annarra flokka og undir þeim stöndum við eins og þetta dæmi sannar.“