KPMG, endurskoðunarfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent Orkuveitunni bréf þar sem segir, að í minnisblaði KPMG, sem lagt var fram í borgarráði síðastliðinn fimmtudag, sé hvergi gefið til kynna að niðurstöður KPMG feli í sér áfellisdóm yfir þeim forsendum, sem gengið var út frá við mat á tilboði Magma Energi í hlut Orkuveitunnar í HS Orku.
Minnisblaðið snerist um mat á tilboði Magma Energy. Í bókun, sem gerð var á fundi borgarráðs segir m.a.: „Svörin frá KPMG staðfesta fullyrðingar fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um að forsendur meirihlutans við núvirðingu tilboðsins séu óeðlilegar."
Orkuveitan segir, að stjórnendur hennar hafi talið nauðsynlegt að fá skýringar á minnisblaði KPMG, í ljósi fullyrðinga, sem settar voru fram um efni þess.
KPMG svaraði spurningum fyrirtækisins bréflega. Eru þar gerir athugasemdir við fullyrðingar í bókun Samfylkingar og VG í borgarráði og sagt að villandi sé að vísa í leggja út af einstökum setningum í minnisblaðinu. Segist KPMG m.a. árétta, að hvergi í minnisblaðinu sé notað það orðalag að forsendur meirihluta borgarstjórnar við núvirðingu tilboðs Magma séu óeðlilegar. Hins vegar hafi komið fram í niðurstöðum KPMG að viðeigandi hefði verið að notast við nokkuð hærra áhættuálag við núvirðingu skuldabréfsins en gert var.
Bókunin í borgarráði
Umrædd bókun fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna í Borgarráði var gerð á fundi ráðsins fimmtudaginn 10. september síðastliðinn. Á meðal þess sem þar segir er að svör frá KPMG staðfesti að forsendur meirihlutans við núvirðingu tilboðsins séu óeðlilegar. Í bókuninni vitna fulltrúarnir í svör KPMG og segja meðal annars:
„Hvorki Magma Energy, Magma Energy Sweden né HS Orka eru með skráð lánshæfismat. Magma Energy er ungt félag (stofnað 2008) og starfar á tiltölulega ungum markaði sem byggir á nýlegri tækni. Samanburður við sambærileg félög er erfiður. Horfur á fjármálmörkuðum eru ennþá óljósar sem endurspeglast meðal annars í háu áhættuálagi skuldabréfa í sögulegu samhengi. Það er því niðurstaða KPMG að það hefði verið „viðeigandi að notast við nokkuð hærra áhættuálag við núvirðingu skuldabréfsins en OR notast við í sínum útreikningum“.
KPMG staðfestir að „eðlilegt sé að notast við áhættuálag ofan á ríkistryggða vexti við mat á ávöxtunarkröfu til núvirðingar bréfsins“. Varðandi áhrif þess að síðustu staðgreiddu viðskipti í HS Orku voru á genginu 4,7 segir í minnisblaði KPMG: „að sé gengið út frá þeirri forsendu að gengið 4,7 endurspegli gangvirði hlutabréfa HS Orku hafi það að öðru óbreyttu áhrif til hækkunar ávöxtunarkröfu“.
Ámælisvert er að stjórnarformaður OR hefur á opinberum vettvangi vísað til staðfestingar KPMG á útreikningum meirihlutans. Nú þegar svör KPMG liggja fyrir er þvert á móti ljóst að í þeim felst áfellisdómur yfir forsendum sem gengið er út frá við mat meirihlutans á tilboði Magma.“