Endurskoðendur í svaðið?

Aðalstöðvar Orkuveitunnar í Reykjavík.
Aðalstöðvar Orkuveitunnar í Reykjavík. Þorvaldur Örn Kristmundsson

,,Meirihlutinn borgarstjórnar, sem á síðustu dögum hefur sýnt að hann muni ekkert láta stöðva sig í að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur á vildarkjörum, reyndi í kvöld að draga sjálfstæða endurskoðendur Orkuveitunnar, KPMG, með sér ofan í pólitískt svað," segir í yfirlýsingu frá borgarfulltrúunum Sigrúnu Elsu Smáradóttur og Þorleifi Gunnlaugssyni.
 
,,Í fréttatilkynningu OR sem send var fjölmiðlum er beinlínis sagt að hitt og þetta komi fram í nýju minnisblaði KPMG sem alls ekki kemur fram í því.  Þá er því er haldið fram að KPMG telji svör félagsins til borgarráðs frá því í síðustu viku hafa verið “mistúlkuð” en lesa má úr þeim að meirihluti borgarstjórnar og stjórnendur Orkuveitunnar hafi ofmetið verðgildi skuldabréfs til sjö ára sem koma á sem greiðsla fyrir hlut OR í HS-orku. Þá er því haldið fram í tilkynningu meirihlutans að KPMG vilji “mótmæla” bókun minnihlutans úr borgarráði sem byggir á svörum fyrirtækisins.
 
Skemmst er frá því að hvergi er talað um “mistúlkun” eða “mótmæli” af nokkru tagi  í bréfi KPMG. Þar er þvert á móti ítrekuð sú niðurstaða KPMG: “að viðeigandi hefði verið að notast við nokkuð hærra áhættuálag við núvirðingu skuldabréfsins en OR notast við í sínum útreikningum.”  Þetta er ekki hægt að lesa öðru vísi en að áhætta af kúluláninu hafi verið vanmetin af stjórnendum OR og meirihluta borgarstjórnar. Þetta styður þá gagnrýni sem að samningnum hefur beinst, m.a. að hálfu minnihlutans í borgarstjórn.
 
Sú staðreynd að meirihluti borgarstjórnar hafi reynt að svæla nýja afstöðu út úr KPMG og leyfir sér nú leggja fyrirtækinu orð í munn og mistúlka afstöðu þessa á þennan hátt er verulegt umhugsunarefni. Sérstaklega vekur athygli að endurskoðendur Orkuveitunnar telja sig þurfa að verja augljósar niðurstöður sínar með vísan til alþjóðlegra reiknisskilareglna.

Vekur það upp spurningar um hvort endurskoðendurnir hafi verið undir óeðlilegum þrýstingi um að skila nýju áliti sem væri meirihlutanum þóknanlegra."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert