„Samtökin töldu vera svigrúm fyrir meiri hækkun ekki síst í ljósi þess að útflutningur hefur verið að skila góðum verðum. Sláturleyfishafar bera sig hinsvegar illa vegna hás vaxtastigs og erfiðrar stöðu efnahagsmála,“ segir Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda á vef samtakanna.
Allir sláturleyfishafar hafa nú birt verð sauðfjárafurða fyrir haustið. Verðbreytingin frá í fyrra er alls staðar með svipuðum hætti þ.e. útflutningsverð 2008 hækkar upp í innanlandsverð þess árs. Það þýðir að hækkunin er á bilinu 8-10% á milli ára og meðalverð fyrir kindakjöt til bænda verður um 407 kr/kg. Það er talsvert frá viðmiðunarverði Landssamtökum sauðfjárbænda en þar er meðalverðið 444 kr/kg.
Meðalverð á dilkakjöti á landinu öllu hækkar úr 401 krónu í 438 krónur eða um 9.2%. Hinsvegar lækkar meðalverð á ærkjöti úr 122 krónum í 116 eða um 4.9%. Það þýðir að heildarverðið er að hækka úr 373 krónum í 407 sem er 9.1%. Ef verðið hefði hækkað upp í viðmiðunarverð LS hefði sú hækkun verið um 19% á milli ára. Ef engar frekari breytingar verða á verðskrám þýðir þessi niðurstaða því að bændur fá tæpan helming þeirrar hækkunar sem viðmiðunarverðið gerði ráð fyrir.
„Sláturleyfishafar bera sig illa vegna hás vaxtastigs og erfiðrar stöðu efnahagsmála. Því er ekki að neita, en það hefur einnig bitnað illa á bændum og ekkert ber á neinum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til aðstoðar heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Atvinnulífinu er smá saman að blæða út á meðan að mörgum vikum var eytt í þvarg um ESB,“ segir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Fimmfaldur munur á álagsgreiðslum
Verulegur munur er á þeim álagsgreiðslum sem sláturleyfishafar greiða fyrir sauðfjárbændum þessa vikuna en þetta er jafnframt síðasta vikan sem álagsgreiðslur eru í boði. Norðlenska greiðir 7 krónur á hvert kíló kjöts en SAH afurðir, KS og Sláturhús KVH greiða 35 krónur á hvert kíló kjöts eða fimm sinnum hærra álag.
Að auki greiða KS og Sláturhús KVH sérstakt 200 kr/kg. álag á fituflokka 4 og 5 til 16. október.