Fréttaskýring: Hluti af endurskoðun ríkisrekstrarins

mbl.is/Árni Torfason

Lög um tilfærslu verkefna innan stjórnarráðs Íslands taka gildi 1. október næstkomandi. Lagabreytingarnar eru hluti af endurskoðun ríkisrekstrarins í heild, einföldun stjórnsýslu og breyttri verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana. Frekari stjórnkerfisbreytinga er að vænta á næstu mánuðum og eftir tilfærslu verkefna milli ráðuneyta á að ráðast í breytingar á stofnanakerfinu.

Stærstu breytingarnar nú snúa líklega að viðskiptaráðuneytinu, sem fær nafnið efnahags- og viðskiptaráðuneyti, og verður vægi þess sem ráðuneyti efnahagsmála aukið. Er þetta í samræmi við niðurstöðu finnska sérfræðingsins Karlo Jännäri um nauðsyn þess að fækka ráðuneytum sem koma að stjórn efnahagsmála. Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn færast þar með undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið. En með þessu á að auka samþættingu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Málefni AGS hverfa þó ekki alfarið úr forsætisráðuneytinu, því ráðherranefnd um efnahagsmál og samskipti við AGS undir stjórn forsætisráðherra verður sett á fót. Norðurlandaskrifstofa og utanumhald vegna norrænnar samvinnu verður hins vegar flutt frá forsætisráðuneyti til utanríkisráðuneytis.

Samræmd eigendastefna

Töluverður flutningur verkefna á sér einnig stað yfir til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, sem hlýtur nafnið dóms- og mannréttindaráðuneyti. Fasteignamat og fasteignaskráning flytjast þangað frá fjármálaráðuneyti, en stuðla á að aukinni samvinnu og samræmingu í skráarvinnslu með því að hafa þjóðskrá og fasteignaskrá undir sama ráðuneyti. Tilfærslan þykir aukinheldur falla vel að hugmyndum um stofnun innanríkisráðuneytis. Ráðuneytið fær einnig á sína könnu framkvæmd sveitarstjórnarkosninga sem nú er hjá samgönguráðuneyti. En dómsmálaráðuneyti hefur frá upphafi annast framkvæmd alþingis- og forsetakjörs. Málefni er varða mansal flytjast þá til ráðuneytisins frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, sem og neytendamál frá viðskiptaráðuneytinu.

Frekari nafnabreytingar eiga sér einnig stað því samgönguráðuneytið verður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og menntamálaráðuneytið mennta- og menningarmálaráðuneyti og mun það taka yfir forræði menningarstofnana, menningarverkefna og sjóða, s.s. Gljúfrasteins og Þjóðmenningarhúss, af forsætisráðuneyti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert