„Við getum ekki borið pólitíska ábyrgð í aðildarviðræðum, til dæmis þegar höggva þarf á erfiða hnúta,“ segir Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands. Boðað er að náið samráð verði haft við fulltrúa hagsmunasamtaka og atvinnugreina í viðræðum Íslendinga um aðild að ESB.
Samkvæmt þingsályktunartillögu um aðildarumsókn verða settir á laggirnar níu undirhópar sem fjalla til að mynda um sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamál og svo framvegis. Bændum hefur ekki verið boðin þátttaka í þessu starfi enn sem komið er, að sögn Haraldar. Sama segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ, sem vísar til áðurnefndrar þingsályktunartillögu.
„Við munum tilnefna fulltrúa gefist okkur kostur á því,“ segir Friðrik. „Vegna aðildarviðræðna var Evrópusambandið núna að senda okkur 2.500 spurningar. Uppleggið þar er að við Íslendingar aðlögumst regluverki sambandsins en getum engu breytt sjálfir í þess ranni. Þetta eru því ekki viðræður tveggja jafnsettra aðila og útkoman hlýtur að ráðast af því,“ segir Haraldur Benediktsson og bætir við að Bændasamtökin hafi óskað þess við utanríkisráðuneytið að spurningar ESB verði kynntar á íslensku og rétt eins og svörin og framsetning þeirra.
„Afstaðan er skýr, við teljum að aðild Íslands að ESB komi ekki til álita ef það þýðir að við þurfum að undirgangast fiskveiðistefnu sambandsins,“ segir Friðrik J. Arngrímsson. Fiskveiðistefnan feli í sér að lagasetningarvald Alþingis og forræði yfir sjávarútvegsmálum færist til Brussel sem og fyrirsvar í samningum um deilistofna. Einnig verði takmarkanir við fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi ekki þær sömu og nú er.