Mikilvægt að styrkja eftirlit með bótakerfum

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Það er Vinnumálastofnunar að meta framhald málsins. Lagaheimildirnar eru til staðar og þeir hafa forsendur til að meta tilvikin,“ segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra.

Fréttblaðið greindi frá því að 345 háskólastúdentar í lánshæfu námi voru skráðir atvinnulausir á síðasta skólaári og þáðu atvinnuleysisbætur sem þeir áttu ekki rétt á. Þetta kom í ljós þegar nemendaskrár háskólanna voru keyrðar saman við upplýsingar um þá sem þegið hafa atvinnuleysisbætur. Talið er að nemendurnir hafi þegið samtals um það bil 300 milljónir króna úr Atvinnuleysistryggingarsjóði á síðasta ári.

Staða nemendanna gagnvart Atvinnuleysistryggingarsjóði er í skoðun. Í lok ágúst vakti Vinnumálastofnun athygli á að atvinnuleitendum er ekki heimilt að stunda nám samhliða töku atvinnuleysisbóta nema mat ráðgjafa  Vinnumálastofnunar liggi fyrir um að heimila slíkt og gerður hafi verið sérstakur námssamningur þar um. Þá var og bent á að Vinnumálastofnun hefur fengið auknar lagaheimildir til samkeyrslu við nemendaskrár framhalds- og háskóla.

Í frétt Vinnumálastofnunar 27. ágúst segir að komi í ljós að þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur séu jafnframt skráðir í skóla án þess að hafa gert námssamning við Vinnumálastofnun, verða þeir krafðir skýringa, teknir af bótum og/eða endurkrafðir um ofgreiddar bætur, eftir atvikum.

Félagsmálaráðherra segir mikilvægt að vel sé haldið utanum bótakerfin.

„Við þurfum að gæta þess að bótakerfin nýtist þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Þetta dæmi sýnir það, eins og önnur dæmi sem við höfum séð, að við þurfum gæta þess að hafa gott eftirlit með bótakerfunum. Ég hef fullan áhuga á því að styrkja það, bæði í almannatryggingunum og atvinnuleysistryggingunum. Þessi samkeyrsla nemendaskráa háskólanna við skrá atvinnuleysistryggingasjóðs er hluti af þeirri styrkingu. Velferðarkerfið virkar ekki nema við höfum gott utanumhald og tryggjum að bæturnar renni til þeirra sem raunverulega þurfa á þeim að halda," segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert